Frans páfi mun biðja við fyrrverandi útrýmingarbúðir nasista, Auschwitz-Birkenau, í Póllandi í dag. Mun páfinn ganga í þögn um búðirnar þar sem 1,1 milljón manns, aðallega gyðingar, var drepin í seinni heimsstyrjöld. Þá mun hann einnig hitta fólk sem lifði veruna í búðunum af og Pólverja sem hættu lífi sínu við að fela gyðinga fyrir nasistum. Í dag er þriðji dagur fimm daga heimsóknar páfans til Póllands.
Er tilefni heimsóknarinnar það að um þessar mundir eru 1050 ár síðan landið tók upp kristni.
Verður Frans þriðji páfinn til þess að ganga inn um aðalhlið Auschwitz en ólíkt forverum sínum ætlar Frans ekki að ávarpa samkomuna.
Hann kýs frekar að biðja og ganga í þögn á meðan hann horfir á hrúgurnar af skóm barna og hári kvenna sem komu í búðirnar á sínum tíma.
Páfinn hélt stutta ræðu í Kraká á fimmtudaginn þar sem hann hvatti fólk til þess að sýna flóttafólki samkennd. Sagði hann að „miskunnsamt hjarta opnast til þess að bjóða flóttamenn og farandverkamenn velkomna,“ en þau orð eru andstæð innflytjendastefnu stjórnvalda í Póllandi.