„Þið munuð þjást“

Fólk fyrir utan kirkjunna þar sem gíslatakan varð.
Fólk fyrir utan kirkjunna þar sem gíslatakan varð. AFP

Fréttastofa tengd hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hefur nú birt myndband sem á að sýna annan árásarmannanna sem drápu prest í franskri kirkju í vikunni.

Myndbandið á að hafa verið tekið upp skömmu fyrir árásina þar sem tveir menn tóku fimm manns í gíslingu. Maðurinn á myndbandinu er sagður Abdel-Malik Nabir Petitjean af fréttastofunni AMAQ.

Í myndbandinu má sjá manninn ávarpa Francois Hollande, forseta Frakklands, og forsætisráðherrann Manuel Valls. „Tímarnir hafa breyst. Þið munið þjást eins og bræður okkar og systur. Við ætlum að eyðileggja landið ykkar,“ sagði maðurinn.

Petitjean var nítján ára gamall. Í gær tilkynntu frönsk stjórnvöld að þau hefðu borið kennsl á hann sem annan árásarmannanna en hinn hét AdelKermiche. Hann var einnig 19 ára. Þeir skáru prestinn JacquesHamel á háls í kirkjunni í Saint-Etienne-du-Rouvray áður en þeir voru skotnir til bana af lögreglu.

Fréttastofan Amaq birti þessa mynd af Petitjean.
Fréttastofan Amaq birti þessa mynd af Petitjean. AFP

Þá eiga Petitjean og Kermiche að hafa birst í öðru myndbandi saman þar sem þeir lýstu yfir hollustu við leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al Baghdadi.

Öryggisstig í Frakklandi hefur verið hækkað og neyðarlög framlengd í landinu eftir að íslamskur öfgamaður ók bifreið inn í hóp manns í Nice fyrr í mánuðinum og drap 84. Árásin á þriðjudaginn bætti ekki ástandið þar sem mikil spenna er í Frakklandi og hafa stjórnvöld verið sökuð um að standa illa að öryggiseftirliti.

Nú fá strandgestir í frönsku borginni Cannes til að mynda ekki lengur að fara með stórar töskur á ströndina og er það tilraun til þess að hindra árásir á almenna borgara.

Þá hafa stjórnvöld jafnframt verið gagnrýnd eftir að það kom í ljós að bæði Petitjean og Kermiche voru þekktir sem mögulegir öfgamenn. Petitjean hafði verið á lista yfir mögulega hryðjuverkamenn síðan 29. júní þegar sást til hans á tyrkneskum flugvelli á leið til Sýrlands. Af einhverjum ástæðum sneri hann aftur til Frakklands.

Fjórum dögum fyrir árásina, 22. júlí, birti Uclat, hryðjuverkaeftirlit Frakklands, mynd af ónefndum manni sem þeir voru að leita að, sem reyndist vera Petitjean. Kermiche hafði einnig reynt að komast til Sýrlands en hann beið réttarhalda og var í stofufangelsi. Hann var með rafrænt ökklaband en slökkt var á því meðan á árásinni stóð. Saksóknari í máli Kermiche hafði hvatt stjórnvöld til þess að halda honum í fangelsi.

Frétt Sky News.

Jacques Hamel hefur verið minnst í Frakklandi.
Jacques Hamel hefur verið minnst í Frakklandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert