Leiðtogar múslimasamfélagins í Saint-Etienne-du-Rouvray hafa neitað að sjá um jarðarför árásarmannanna sem réðust inn í kirkju í bænum í síðustu viku og myrtu þar kaþólskan prest. Þetta hefur CNN-fréttastofan eftir Mohammed Karabila, yfirmanni múslimasamfélagsins á svæðinu.
Sagði Karabila að hvorki hann né ímaminn á svæðinu vildu eiga nokkurn þátt í jarðarfararundirbúningi hins 19 ára gamla Adels Kermiches, sem heitið hafði hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hollustu áður en hann og Abdel-Malik Petitjean skáru prestinn Jacques Hamel á háls og tóku kirkjugesti í gíslingu. Þeir Kermiche og Petitjean voru síðan drepnir af lögreglu er þeir flúðu af vettvangi.
Franska lögreglan þekkti til Kermiches, sem hafði verið gert að bera ökklaband eftir að hann var látinn laus úr frönsku fangelsi.
Skrifstofa bæjarstjóra í Saint-Etienne-du-Rouvray mun taka endanlega ákvörðun um það hvort leyft verði að jarða Kermiche í bænum.