Rifflarnir ódýrari en snjallsímar

Skothríð kveður við í rykugum bæ í norðvesturhluta Pakistans. Þar er miðja svarta markaðar landsins með skotvopn. Í bænum eru seldar eftirlíkingar af Kalashnikov-rifflum sem eru ódýrari en snjallsímar og seljast í bílförmum.

Bærinn Darra Adamkhel er í dal milli fjallanna í um 35 kílómetra fjarlægð frá borginni Peshawar. Í áratugi var hann miðstöð skipulagðrar glæpastarfsemi. Þar héldu mannræningjar til og þeir sem stunduðu smygl á fólki og fíkniefnum. Svarti markaðurinn blómstraði og þar var flest hægt að kaupa, allt frá stolnum bílum til falsaðra háskólaskírteina.

Þessi ólöglega starfsemi stóð í mestum blóma á níunda áratugnum er skæruliðar hófu að versla þar með vopn vegna stríðs Afgana og Sovétríkjanna. Síðar komst bærinn undir yfirráð Talibana og settu þeir sínar eigin reglur. Þar var líka hið hrottalega morð á pólskum verkfræðingi, Piotr Stanczak, framið árið 2009.

Nú er Darra laus við þessa fortíð að mestu. En þar blómstrar þó vopnasalan enn. Byssusmiðir smíða riffla úr brotajárni en segja yfirvöld hafa aukið öryggi og reglur og því sé harðar tekið á ólöglegri vopnasölu og -framleiðslu.

Khitab Gul, 45 ára byssusmiður, segir að héraðsstjórnin hafi komið upp eftirlitsstöðvum um allt. „Viðskiptin eru að stöðvast,“ segir hann. 

Gul er þekktur í Darra fyrir að smíða eftirlíkingar af belgísku MP5-byssunum, einu vinsælasta vopni í heimi. MP5-byssurnar eru dýrar en útgáfa Gul, sem hefur ársábyrgð, kostar aðeins 67 dollara, um átta þúsund krónur. Þær virka þó vel, að sögn Guls.

Til að sýna virknina hleypir hann af fyrir fréttamann AFP-fréttaveitunnar. Skothríðin er hávær. 

Gul segir að eftirlíkingar af Kalashnikov-rifflum, sem framleiddar eru í Darra, kosti um 15 þúsund krónur. Því séu slíkir rifflar mun ódýrari en snjallsímar. „Smiðirnir hér eru færir og geta búið til hvaða vopn sem þeim er sýnt,“ útskýrir hann. „Á síðustu tíu árum hef ég selt 10 þúsund byssur og ekki fengið eina einustu kvörtun.“

Á verkstæði Guls hrópa verkamennirnir hver á annan til að yfirgnæfa vélarhljóðin. Þeir bora og skera í gegnum brotajárnið og bræða það í ofnum. Brotajárnið fá þeir í skipasmíðastöðvum í Karachi. 

Á verslunargötunni sem sker bæinn í tvennt var áður allt stappfullt af litlum byssubúðum. Þar voru byssur til sýnis í öllum gluggum og áhugasamir viðskiptavinir gátu fengið að hleypa af upp í loftið.

Viðskiptin voru ólögleg og gerð í leyfisleysi. Með þeim var ekkert eftirlit. Yfirvöld litu undan og þóttust ekkert sjá enda svæðið hættulegt, rétt við landamærin að Afganistan þar sem skæruliðar réðu ríkjum. 

Íbúar litu viðskiptin sömu augum en á þessu svæði hafa byssur lengi verið taldar ýta undir karlmennsku og því nær skyldueign allra karlmanna.

En á síðustu árum hefur mikið breyst. Stjórnvöld hafa tekið málin fastari tökum og nú er braskið minna en nokkru sinni.

Önnur hver búð í Darra selur nú matvæli og raftæki í stað vopna. Villta vesturs-andrúmsloftið hefur gufað upp. 

Gul segir að verkstæði hans geti framleitt um tíu byssur á dag. Hins vegar framleiði hann aðeins fjórar daglega. „Eftirspurnin hefur dalað,“ segir hann. 

Byssusmiðirnir kenna ríkisstjórninni og hernum um þá stöðu sem þeir eru komnir í. Fáir komi nú til bæjarins til að kaupa sér byssu. 

Herinn hefur þó ekki gengið alla leið og stöðvað viðskipti með byssur algjörlega í Darra. Hins vegar hefur hann farið fram á það við íbúa að þeir selji ekki skæruliðum vopn og einnig er krafist skotvopnaleyfa, sem eru meira upp á punt en raunveruleg. 

Íbúarnir óttast að þessar aðgerðir verði til þess að bærinn þurrkist út. Allir flytji í burtu því ekkert annað hefur komið í staðinn fyrir byssusöluna. 

Aðrir eru bjartsýnni. Þeir segja að byssusmiðirnir séu færir járnsmiðir og geti því nýtt færni sína í annað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert