Nýr leiðtogi Boko Haram

Nígerki herinn hefur endurheimt stóran hluta yfirráðasvæðis Boko Haram á …
Nígerki herinn hefur endurheimt stóran hluta yfirráðasvæðis Boko Haram á síðustu 18 mánuðum. AFP

Ríki íslams segir í nýjasta tölublaði málgagns síns, al-Naba, að systursamtök þeirra í Nígeríu, Boko Haram, hafi nú fengið nýjan leiðtoga, Abu Musab al-Barnawi, en hann var áður talsmaður samtakanna. BBC greinir frá þessu.

Boko Haram hefur tapað stórum hluta yfirráðasvæðis síns á síðustu 18 mánuðum. Barátta þeirra við nígerísk stjórnvöld hefur staðið yfir í sjö ár og kostað 20.000 mannslíf, flest í norðausturhluta Nígeríu.

Ekki kemur fram hvað varð um fyrri leiðtoga þeirra, Abubakar Shekau við af stofnanda Boko Haram, Muhammed Yusuf, eftir að hann lést í haldi nígerískrar lögreglu 2009.

Síðast heyrðist af honum þegar hann talaði á hljóðupptöku sem Boko Haram sendi frá sér í ágúst á síðasta ári, þar sem hann sagðist vera á lífi og enn við völd. Í apríl síðastliðnum kom fram í myndbandi Ríkis íslams að hann væri enn hæstráðandi samtakanna í Nígeríu.

Í viðtali við al-Naba, segir hinn nýi leiðtogi að samtökin hafi staðið í nýliðun og lýsti baráttu þeirra við ríki Vestur-Afríku sem stríði múslima gegn villutrúarmönnum og krossförum.

Fátt er vitað um al-Barnawi. Hann kom fram sem talsmaður Boko Haram í myndbandi samtakanna í janúar á síðasta ári, þar sem andlit hans hafði verið gert óskýrt. Hann virðist um margt ólíkur fyrri leiðtoga samtakanna, sem jafnan birtist umkringdur vígamönnum, hafandi uppi hótanir og lýsandi sigrum Boko Haram.

Al-Barnawi stendur þó einnig í hótunum og segir bæi og þorp sem streitast munu gegn Boko Haram, verða jöfnuð við jörðu og hét því að Ríki íslams muni halda baráttu sinni áfram í Afríku. Þá segist hann andvígur lýðræði og erlendu námsefni, en nafn samtakanna hefur verið þýtt sem „fræðsla Vesturlanda er bönnuð“, af Hausa-tungumálinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert