Tyrkneska lögreglan handtók í morgun tuttugu grunaða liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í borginni Adana í suðurhluta landsins.
Tyrkneski fjölmiðillinn Dogan greindi frá þessu í morgun.
Lögreglumenn réðust inn á 22 staði í borginni í morgun eftir að lögreglan fékk nafnlausa ábendingu um að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna væru að skipuleggja árásir í landinu.
Mennirnir, sumir hverjir hátt settir liðsmenn samtakanna, voru færðir í gæsluvarðhald á lögreglustöðinni í Adana. Þar verða þeir yfirheyrðir.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sagt að vígamenn Ríkis íslams frá fyrrum Sovétríkjunum hafi staðið að baki árásinni á Ataturk-alþjóðaflugvöllinn í Istanbúl í júní síðastliðnum. 45 manns létu lífið í árásinni.
Tugir manna hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins, að því er segir í frétt Reuters.