Greint var frá því í gær að nýr leiðtogi hefði tekið yfir hryðjuverkasamtökin Boko Haram. Fyrrum leiðtogi samtakanna, Abubakar Shekau, hefur nú stigið fram og segist enn vera við völd.
Frétt mbl.is: Nýr leiðtogi Boko Haram
Hvorki hefur sést til né heyrst í Shekau síðan í ágúst á síðasta ári, þegar hann sendi frá sér hljóðupptöku. Hann hefur nú sent frá sér aðra slíka, þar sem hann sakar hinn meinta nýja leiðtoga Boko Haram, Abu Musab al-Barnawi, sem er fyrrum talsmaður samtakanna, um tilraun til valdaráns og segir hann og fylgismenn hans vera fjölgyðistrúarmenn.
Í 10 mínútna ávarpi sínu, sem Shekau flutti á bæði arabísku og Hausa-tungumálinu, virtist hann draga úr sambandi Boko Haram og Ríkis íslams, en kallaði þó leiðtoga síðarnefndu hryðjuverkasamtakanna, Abu Bakr al-Baghdadi, kalífa.
Sagði hann einhverja innan Boko Haram hafa komið í veg fyrir samskipti sín og leiðtoga Ríkis íslams. Hann hafi verið verið beðinn um að senda al-Baghdadi hugmyndafræði sína og sent honum átta bréf. Engin svör hafi borist og segir Sherkau að einhver hafi stöðvað skilaboðin á leiðinni og ætlað að nýta þau í eigin þágu.
Nú hafi hann séð tilkynningu þess efnis að hann sé ekki lengur leiðtogi Boko Haram, en þvertekur fyrir það.
Fréttaritari breska ríkisútvarpsins, BBC í Nígeríu segir deilurnar geta haft mikil áhrif á starfsemi Boko Haram og að uppákoman gæti verið vendipunktur í baráttunni gegn þeim.