Hópur sem hefur tekið vatngarð í nágrenni frönsku borgarinnar Marseille á leigu fyrir múslíma-konur og börn yngri en tíu ára hefur verið harkalega gagnrýndur af stjórnmálamönnum á hægri vængnum. Ástæðan fyrir því að hópurinn, Smile13, ákvað að leigja sundlaugagarðinn er að hvetja múslíma-konur til þess að fara í sund og mæta í „burqinis“ en það er sundfatnaður sem hylur konur frá toppi til táar.
Meðal þeirra sem hafa andmælt þessu er repúblikaninn Valerie Boyer sem er hverfisstjóri í tveimur hverfum Marseille en hún segir að með þessu sé verið að samþykkja aðskilnað í landinu en bannað er í Frakklandi að bera höfuðfatnað sem hylur andlitið. Hins vegar er heimilt að klæðast fatnaði sem hylur allan líkamann. Boyer segir að þetta snúist einnig um sæmd kvenna sem sé eitt af grundvallarreglum fransks samfélags.
Í tilkynningu frá Smile 13 er þess krafist að konur sem ætli að mæta verði að hylja sig frá brjósti niður að hné. Drengir yngri en tíu ára mega koma en ekki fullorðnir karlar.
Stephane Ravier, félagi í Þjóðfylkingunni og hverfisstjóri í Marseille, er einnig ósáttur framtak Smile13 og segir að með þessu sé gengið gegn ríkjandi gildum í samfélaginu.
Alls búa fimm milljónir múslíma í Frakklandi en aðeins um tvö þúsund konur ganga í búrkum í landinu. Frá árinu 2004 hefur slíkur klæðnaður verið bannaður í Frakklandi og einnig höfuðklúta í skólum landsins líkt og önnur trúartákn.