Ástsjúkir láti brýr Parísar í friði

Ástinni halda engin bönd en borgaryfirvöld í París reyna sitt til þess að koma böndum á ástina. Ástarlásar á brúm Parísar eru vel þekkt fyrirbæri en því miður taka þeir sinn toll því brýrnar á Signu eru að sligast undan þeim.

Í júní í fyrra létu borgaryfirvöld fjarlægja hundruð þúsunda ástarlása af brúm í borginni og voru flestir þeirra á Pont des Arts en brúin var við það að láta undan þunganum. 

Glerveggjum var komið fyrir á brúnni, sem er skammt frá Notre Dame kirkj­unni, svo ekki væri hægt að koma þar fyr­ir lás­um. En þetta dugði skammt því ástsjúkir ferðamenn töltu með lása sína að annarri brú og það ekki hvaða brú sem er heldur elstu brú borgarinnar, Pont Neuf.

Aðstoðarborgarstjóri Parísar, Bruno Juillard, segir að settir verði upp auglýsingaborðar á brúnni og öðrum brúm á Signu á ensku og frönsku með skilaboðum eins og: Enga lása takk fyrir og Finnið aðra leið til þess að láta ást ykkar í ljós.

Juillard segir að borgaryfirvöld vilji að París verði áfram borg ástarinnar og að elskendur alls staðar úr heiminum komi þangað áfram. Borgin sé mjög rómantísk, einkum og sér í lagi við Signu, en það verði að vernda arfleifð hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert