Trump grandalaus erindreki Pútíns?

Michael Morell, fyrrverandi yfirmaður CIA, telur Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana …
Michael Morell, fyrrverandi yfirmaður CIA, telur Donald Trump forsetaframbjóðanda repúblikana vera ógn við þjóðaröryggi. AFP

Fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA hefur lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata. Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins segir hann hins vegar vera grandalausan erindreka Valdimírs Pútíns Rússlandsforseta.

„Pútín spilaði inn á veikleika Trump með því að hrósa honum,“ skrifar Michael Morell  fyrrverandi varaforstjóri CIA,  í leiðaragrein í New York Times. „Í leyniþjónustubransanum þá myndum við segja að Pútín hafi ráðið Trump sem grandalausan erindreka Rússlands.“

Morrell hefur áður lýst því yfir að hann sé ekki flokksbundinn, en hann hefur unnið fyrir ríkistjórnir Demókrata- og Repúblikanaflokksins. Hann segir Clinton vera „mjög hæfa“ til að leiða Bandaríkin, en Morrell vann með Clinton er hún gegndi starfi utanríkisráðherra.

„Clinton er mjög hæf til að vera hæstráðandi,“ skrifaði Morrell. „Ég treysti henni til að gegna mikilvægasta starfi forseta – að tryggja öryggi þjóðar okkar.“

Trump fær ekki sömu einkunn hjá Morell sem segir: „Donald J. Trump er ekki aðeins vanhæfur til starfans, heldur kann hann einnig að reynast ógn við þjóðaröryggi.“

Þá segir hann hugmyndir Trump um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna, færa á silfurfati þeim öfgatrúarmönnum sem vilja heilagt stríð á þá skýringu að stríðið gegn hryðjuverkum sé trúarbragðastríð.

Trump hefur ítrekað lagt til að múslimum verði bannað að koma til Bandaríkjanna á grundvelli hryðjuverkalaga. „Ég lærði í þjálfum minni sem leyniþjónustumaður að tjá mig um það sem blasir við. Þjóð okkar verður mun öruggari með Hillary Clinton sem forseta,“ sagði Morrell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert