Yfirvöld í Íran banna Pokémon Go

Stjórnvöld í Íran hafa bannað Pokémon Go vegna ótilgreindra „öryggisvandamála,“
Stjórnvöld í Íran hafa bannað Pokémon Go vegna ótilgreindra „öryggisvandamála,“ AFP

Stjórnvöld í Íran hafa bannað farsímaleikinn vinsæla Pokémon Go vegna ótilgreindra „öryggisvandamála,“ að því að fréttavefur BBC greinir frá.

Það var æðstaráð sýndarveruleika, sem hefur yfirumsjón með netvirkni, sem úrskurðaði að leikurinn skyldi bannaður.

Yfirvöld í Íran fylgja þar í fótspor fjölda annarra ríkja sem hafa lýst yfir áhyggjum af því að öryggisvandamál fylgi leiknum. Íran er þó fyrsta ríkið til að banna Pokémon Go, en leikurinn hvetur þá sem hann spila til að heimsækja ýmsa staði í raunheimum til að veiða pokémona.

Þrátt fyrir að hafa takmarkaðan netaðgang þá hafa Íranar rætt leikinn sín á milli á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur. En í síðasta mánuði greindu írönsk yfirvöld frá því að þau biðu nú fregna af því hvort hönnuðir leiksins reyndust samstarfsfúsir, áður en gripið yrði til þess ráðs að banna hann.

Yfirvöld í Indónesíu hafa áður bannað lögreglumönnum þar í landi að spila Pokémon Go á meðan að þeir eru í vinnunni og þá var Frakki nokkur handtekinn í síðasta mánuði eftir að hann hafði villst inn í herstöð er hann var á pokémon veiðum.

Eins hefur klerkur nokkur í Sádí-Arabíu ítrekað að fatwa-trúartilskipun sem kveðin var upp gegn fyrri útgáfum af Pokémon leikjum, gildi einnig um farsímaútgáfuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka