Þrettán ungmenni á aldrinum 16-25 ára létust í eldsvoða á bar í Rúðuborg (Rouen) í gærkvöldi. Staðurinn varð alelda á nokkrum mínútum þegar manneskja hrasaði í stiga með afmælisköku með logandi kertum á. Eldurinn minnti helst á eldvörpu segir kona sem slapp heil á húfi.
Eldsvoðinn er sá mannskæðasti í meira en áratug, að sögn slökkviliðsmanna, en veggir og loft staðarins eru klædd hljóðeinangri efni sem varð alelda á örskotsstundu. Sex slösuðust í eldsvoðanum og er einn þeirra í lífshættu.
Að sögn yfirvalda var staðurinn, Au Cuba Libre, þéttsetinn af ungu fólki sem var í afmælisveislu þar. Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, sendi fjölskyldum ungmennanna samúðaróskir en rannsakað er hvort reglum um brunavarnir hafi verið framfylgt á staðnum.
Saksóknari í Rúðuborg, Laurent Labadie, segir að eldurinn hafi kviknað um miðnætti í kjallara staðarins og um slys hafi verið að ræða. „Einhver kom niður með afmælisköku með kertum og féll niður stigann. Kertin þeyttust á veggi og loft þar sem hljóðeinangrandi efni var og staðurinn varð strax alelda.“
Slökkvilið kom fljótt á veggvang en þeir sem voru inni á staðnum börðust við eiturgufur og eld. Að sögn lögreglu læsti eldurinn sig í einangrun í lofti kjallarans og leysti úr læðingi eitraða blöndu af gasi.
Móðir átján ára gamallar stúlku sem lést í eldsvoðanum segist hafa beðið dóttur sína að fara ekki en dóttir hennar, sem ætlaði sér að læra hjúkrun, hlustaði ekki á móður sína og fór í afmælið. Tvítugur maður sem var á staðnum segir að flestir gestanna hafi þekkst og verið frekar eins og fjölskylda svo nánir voru þeir. „Þetta var staðurinn sem við fórum öll á saman,“ sagði hann í viðtali við AFP-fréttastofuna í dag.