Pistorius fluttur á sjúkrahús

Reeva Steenkamp og Oscar Pistorius um mánuði áður en hann …
Reeva Steenkamp og Oscar Pistorius um mánuði áður en hann skaut hana til bana. AFP

Suðurafríski hlauparinn Oscar Pistorius var fluttur á sjúkrahús í gær eftir að hafa slasast í fangelsi. Pistorius var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir morðið á unnustu sinni Reevu Steenkamp.

Samkvæmt upplýsingum frá talsmanni Kgosi Mampuru II-fangelsisins datt Pistorius úr rúmi sínu í fangaklefanum í gær og meiddist á hendi. Hann dvaldi á sjúkradeild í nótt en er kominn í fangelsið að nýju. Samkvæmt frétt City Press eru meiðsl Pistorius á úlnlið. Talsmaður fangelsisins vildi ekki staðfesta það í morgun. Ýjað hefur verið að því í fjölmiðlum að Pistorius hafi sjálfur skaðað sig en talsmaðurinn sagði að það væru aðeins getgátur.

Pistorius var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að hafa skotið unnustu sína til bana aðfaranótt 14. febrúar 2013 en hann bar því við að hann hefði talið að hún væri innbrotsþjófur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert