Meirihluti kjósenda í Taílandi hefur samþykkt nýja stjórnarskrá en haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána í landinu í morgun. Bráðabirgðastjórnarskrá hefur verið í gildi í landinu síðan herforingjastjórnin rændi völdum árið 2014.
BBC greinir frá því að skv. óformlegum tölum hafi 61,45 prósent kosið með stjórnarskránni. Kosningaþátttaka var lítil og greinir BBC frá að kjósendur hafi einnig samþykkt hina tillöguna sem var borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni; hvort efri deild þingsins ætti að velja forsætisráðherra ásamt þeirri neðri, sem sér um það nú.
Herforingjastjórnin hafði bannað kosningabaráttu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar og voru nokkrir tugir manna handteknir sem gerðust brotlegir við reglur herforingjastjórnarinnar.
Stærstu stjórnmálaflokkar Taílands höfnuðu stjórnarskránni en gagnrýnendur stjórnarskrárinnar segja að með henni séu völd hersins í landinu tryggð enn frekar. Stuðningsmenn segja aftur á móti stjórnarskrána binda enda á pólitískan óstöðugleika.
Óháðir aðilar höfðu óskað eftir því að fylgjast með atkvæðagreiðslunni í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar en kosningastjórnin gaf ekki leyfi fyrir slíku.