Hælisleitandinn glímdi við geðröskun

Heimili fyrir unga hælisleitendur í Molndal.
Heimili fyrir unga hælisleitendur í Molndal. AFP

Héraðsdómur í Gautaborg í Svíþjóð hefur dæmt ungan hælisleitanda til vistar á réttargeðdeild vegna morðs sem hann framdi á heimili fyrir unga hælisleitendur þar í landi í janúar.

Maðurinn var dæmdur ósakhæfur en hann stakk 22 ára konu, sem starfaði á heimilinu, þrívegis með þeim afleiðingum að hún lét lífið. Maðurinn er sagður hafa glímt við alvarlega geðröskun þegar hann framdi morðið. 

Alexandra Mezher átti aðeins tæpan hálftíma eftir af næturvaktinni þegar maðurinn réðst á hana. Á heimilinu bjuggu tíu hælisleitendur á aldrinum 14 til 17 ára sem áttu það sameiginlegt að vera í Svíþjóð án fjölskyldu sinnar.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði gerst sekur um morð og árás á annan íbúa á heimilinu. Maðurinn þarf að greiða fjölskyldu konunnar 300 þúsund sænskar krónur, eða sem jafngildir rúmlega 4,2 milljónum íslenskra króna. Þá verður manninum einnig vísað úr landinu og má hann ekki snúa aftur fyrr en árið 2026.

Í umfjöllun Aftonbladet kemur fram að fjölskylda konunnar sé vonsvikin með niðurstöðuna en þau vildu að maðurinn yrði dæmdur til fangelsisvistar.

Maðurinn stakk Mezher í lærið, bakið og annan handlegginn. Íbúar á heimilinu héldu honum niðri þangað til lögregla kom á vettvang. Svo virðist sem árásin hafi verið skyndileg en ekki hafði komið til átaka á milli unglingsins og starfsmannsins.

Deilt hefur verið um aldur mannsins. Sjálfur segist hann vera fimmtán ára en rannsókn sem gerð var bendir til þess að hann sé eldri en átján ára. Við meðferð málsins var miðað við að hann sé fullorðinn.

Frétt mbl.is: Var ein á vakt þegar hún var stungin

Frétt mbl.is: Ungt flóttafólk litið hornauga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert