Í gærkvöldi komu mörg þúsund manns saman á útifundum í tíu borgum í Noregi í kjölfar þess að þrír karlmenn voru sýknaðir af ákæru fyrir að hafa nauðgað 18 ára stúlku í Hemsedal í Noregi í mars 2014.
Útifundirnir voru undir slagorðinu „Réttaröryggi fyrir konur“. Á meðal þeirra sem mættu á fundinn var þolandinn í sýknumálinu, Andrea Voll Voldum. Sýknudómurinn féll 7. júlí á þessu ári. Strax í kjölfar dómsins ákvað Andrea að stíga fram og birta nöfn gerendanna í málinu. Vakti það mikla athygli, bæði á samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum.
Lögreglan hóf rannsókn á meintu nauðgunarmáli í mars 2014 í Hemsedal, einu stærsta skíðasvæði Noregs. Þrír menn voru handteknir og vettvangur glæpsins, lítill skíðakofi, var girtur af. Var mönnunum gefið að sök að hafa nauðgað Andreu. Bæði stúlkan og mennirnir þrír voru undir áhrifum MDMA. Stúlkan sagðist ekki vita um hvaða efni væri að ræða þegar hún notaði það umrætt kvöld.
Um hálftíma eftir að hún tók efnið fann hún að henni varð óglatt og hún fór hægt og rólega að missa meðvitund. Að lokum leið yfir hana og hún vaknaði svo aftur í rúmi í kofanum. Þá á nauðgunin að hafa átt sér stað.
Tóku mennirnir síðan leigubíl að öðru húsi og tóku stúlkuna með sér. Leigubílstjórinn segir að stúlkan hafi verið nær meðvitundarlaus þegar þeir tók hana með sér og þurftu mennirnir að halda á henni „eins og kartöflupoka“.
Mennirnir voru upphaflega dæmdir fyrir nauðgun á lægsta dómstiginu. Þeim dómi var áfrýjað upp á æðra dómstig þar sem sitja bæði löglærðir dómarar auk kviðdóms. Kviðdómurinn vildi sýkna mennina en löglærðu dómararnir ákváðu að ógilda ákvörðun kviðdómsins. Var málið því flutt aftur á sama dómstigi með svokölluðu meðdómarafyrirkomulagi eins og gert er í slíkum tilvikum í Noregi. Þá dæma í málinu þrír fagdómarar og fjórir ólöglærðir meðdómarar. Í slíkum málum þurfa fimm af sjö dómurum að vera sammála en aðeins fjórir vildu sakfella mennina. Voru mennirnir því sýknaðir í júlí á þessu ári.
Minnihlutinn sem vildi sýkna mennina taldi að ekki væri hægt að sanna að mennirnir hafi haft vitneskju um að stúlkan væri ekki í ástandi til þess að verja sig eða taka upplýsta ákvörðun. Þrátt fyrir að mennirnir hafi vitað að skammturinn sem stelpan tók af MDMA væri lífshættulega stór.
Mennirnir þrír voru hins vegar dæmdir til að greiða Andreu 300 þúsund norskar krónur í skaðabætur þar sem aðeins einfaldan meirihluta dómenda þarf til þess að sakfella í skaðabótamáli.
Málið hefur vakið mikla athygli. Ekki síst vegna nafnbirtingar þolandans á gerendum í málinu auk þess sem nöfnum dómaranna var lekið á netið. Hafa bæði meintir gerendur og dómarar fengið hótanir.
Mennirnir hafa fengið mörg hundruð skilaboð á Facebook þar sem þeim er hótað lífláti. Hafa mörg skilaboðanna verið kærð til lögreglu. Mennirnir íhuga að kæra Andreu fyrir að birta nöfn þeirra og telja hana ábyrga fyrir þeim hótunum sem þeir hafa fengið yfir sig.
Andrea segist sjálf hafa nafngreint mennina til þess að aðrar stelpur þurfi ekki að upplifa það að verða fyrir kynferðisofbeldi án þess að neinn trúi þeim.
Rørende demonstrasjon for voldektsofres rettssikkerhet i Oslo. #jegtrordeg pic.twitter.com/Vvh10VZwWC
— Fredrik Walløe (@fwalloe) August 8, 2016
Dómarar í málinu segjast í samtali við Verdens gang hafa fengið ótal hótanir og niðrandi skilaboð. Þá segja þeir að óþægilegt sé að sjá að verið sé að deila myndum af þeim á samfélagsmiðlum. „Það er hræðilegt að vera opinberaður á þennan hátt. Ég hef fengið hótanir bæði á SMS og Facebook. Ég reyni að lesa ekki þessar hótanir. Mér finnst skorta á öryggisráðstafanir til handa dómurum,“ segir einn dómarinn í samtali við blaðið.
Í Ósló var haldinn útifundur fyrir framan norska þingið. Þangað mættu einnig nokkrir stjórnmálamenn. Heidi Nordby Lunde, þingmaður norska Hægriflokksins, hélt hugvekju fyrir framan þinghúsið.
„Ég er brjáluð yfir því að við þurfum að standa hérna árið 2016. Mér hefur oft verið boðið í eftirpartý og ég fer venjulega ekki í eftirpartý til að vera edrú. En það er ótrúlegt að það skuli vera svona erfitt að skilja það, að við förum ekki í eftirpartý til að láta nauðga okkur,“ sagði Nordby Lunde og beindi sjónum sínum að þeim sem segja að konur verði að passa sig að fara ekki í eftirpartý þegar þær eru ofurölvi.
Á útifundinum mátti sjá fjöldann allan af plakötum þar sem var skrifað: „Ég trúi þér“ til stuðnings Andreu Voll Voldum. Sjálf sagðist Andrea vera stolt af því hversu margir mættu í gær.
Når handlingsrommet for menn blir større enn handlingsrommet for kvinner må vi demonstrere!#jegtrordeg pic.twitter.com/RglgyKYVgO
— Cecilie (@agnalt) August 8, 2016