Féll 20 þúsund fet á mínútu

AFP

Farþegaþota Malaysia Airlines, flug MH370, steyptist ofan í sjóinn á miklum hraða, allt að 20 þúsund fet á mínútu, sem styrkir mjög líkur á að þotan hafi brotlent á svæðinu sem leitað er á.

 Boeing 777-farþegaþotan hvarf af ratsjám 8. mars 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking með 239 um borð.

Vélarinnar hefur verið leitað þrotlaust í suðurhluta Indlandshafs en enn hefur ekki tekist að finna staðinn þar sem vélin brotlenti. 

Rannsóknir sem bæði Boeing og áströlsk yfirvöld hafa gert benda til þess að vélin hafi verið á miklum hraða þegar hún hafnaði í sjónum. Í frétt ástralska dagblaðsins The Australian í dag kemur fram að þeir sem leiða rannsóknina af hálfu ástralskra yfirvalda telji líklegt að flugmaðurinn beri ábyrgð á hvarfi vélarinnar. Þeir eru hins vegar sannfærðir um að leitarsvæðið sé rétti staðurinn, það er vélin hafi brotlent á þessum slóðum sem leitað er á í Indlandshafi.

Nýverið staðfestu malasísk yfirvöld að annar flugmannanna hafi notað heimatilbúinn flughermi til þess að æfa brotlendingu svipaða og þá sem síðar varð. Þau segja að þetta sanni hins vegar ekki að flugmaðurinn hafi vísvitandi brotlent henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka