Fengu byssukúlur í pósti vegna búrkíní-dags

Búrkíní er sérstakur sundfatnaður sem múslímskar konur hafa klæðst og …
Búrkíní er sérstakur sundfatnaður sem múslímskar konur hafa klæðst og ætluðu skipuleggendur búrkíní-dagsins að hafa vatnagarðinn opinn í einn dag fyrir múslímskar konur. Af Wikipedia

Forsvarsmenn vatnaskemmtigarðs í nágrenni borgarinnar Marseille í Frakklandi hafa tilkynnt að sérstökum búrkíní-degi, sem halda átti 10. september, hafi verið aflýst.

Búrkíní er sérstakur sundfatnaður sem múslímskar konur hafa klæðst og ætluðu skipuleggendur búrkíní-dagsins, Smile 13, að hafa vatnagarðinn opinn í einn dag fyrir múslímskar konur, en sérstaklega var tekið fram að tvískiptur sundfatnaður væri bannaður þann daginn.

Í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum vatnagarðsins segir að ákvörðun um að aflýsa búrkíní-deginum hafi verið tekin til að halda friðinn, sem nú væri ógnað af „öfgakenndum skoðunum.“

Búrkíní-dagurin var m.a. gagnrýndur af íhaldssömum stjórnmálamönnum sem sögðu hann brjóta í bága við veraldleg gildi sem tryggð væru með lögum. Þá hafa skipuleggjendur fengið sendar byssukúlur í pósti.

Smile 13 gagnrýnir á Facebook síðu sinni múslíma hatrið sem einkenni umræðuna sem hópurinn hafi orðið fyrir. Segjast þeir hafa fylgst af undrun og  harmi með því hversu umdeildur atburðurinn varð.

Stjórnmálamenn á hægri vængnum fordæmdu m.a. atburðinn, sem þeir sögðu brjóta gegn virðingu kvenna, að því er fréttavefur BBC greinir frá.

 SpeedWater-vatnagarðurinn tilkynnti svo í dag að ákveðið hefði verið að hætta við viðburðinn. „Hvorki SpeedWater-vatnagarðurinn né Pennes-Mirabeau-sveitarfélagið vill valda óróa meðal almennings vegna mála sem eru utan þeirra umdæmis,“ sagði í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert