Hundruð mannslífa í hættu

Óléttar konur og börn eru meðal þeirra 235 sem staðfest er að hafi fallið í árásum í sýrlensku borginni Aleppo síðustu daga. Þúsundir eru innlyksa. Margir hafa engan mat, ekkert vatn eða lyf og ekkert rafmagn. Hundruð mannslífa eru því í hættu.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, um ástandið í borginni.

Síðustu vikur og daga hafa bardagarnir í Aleppo harðnað gríðarlega. Borgin, sem er ein sú elsta á jörðu, var miðpunktur efnahagslífs Sýrlands fyrir stríð. Hún var einnig sú fjölmennasta í landinu. Harðir bardagar hófust um borgina í júlí árið 2012, rúmlega ári eftir að stríðið braust út. Síðan þá hafa heilu borgarhlutarnir verið jafnaðir við jörðu. Enn er þar tekist á og ræður stjórnarherinn ríkjum í vestari hluta hennar og uppreisnarmenn í austurhlutanum.

Árásir hafa eyðilagt innviðina, s.s. sjúkrahús, vatnsgeyma og leiðslur og rafmagnskerfi. Því hafa íbúarnir flestir lítinn sem engan aðgang að læknisþjónustu, rafmagni eða vatni.

Talið er að á milli 250 og 275 þúsund manns séu innlyksa í austurhluta Aleppo og hafi verið það frá því snemma í júlí. Vegna harðnandi átaka hefur meginvegum í borginni og við hana verið lokað. 

Síðustu tvo sólarhringa hefur loks tekist að koma neyðarbirgðum til þeirra hverfa sem hvað verst hafa orðið úti. Enn er þó gríðarlegur skortur á lífsnauðsynlegum mat og lyfjum. 

Síðustu daga hafa Sameinuðu þjóðirnar og fleiri alþjóðlegar stofnanir ekki komist til borgarinnar vegna loftárása. 

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af því grafalvarlega og hættulega ástandi sem blasir við hundruðum þúsunda óbreyttra borgara í Aleppo,“ segir Sajjad Malik, talsmaður sendinefndar Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa skorað á stríðandi fylkingar að leggja niður vopn svo hægt sé að koma hjálpargögnum og aðstoð til íbúanna. 

Vígamenn aka um götur hverfanna í Aleppo. Íbúarnir þora ekki …
Vígamenn aka um götur hverfanna í Aleppo. Íbúarnir þora ekki út. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert