Vilja ekki EES-samninginn

AFP

Bresk stjórnvöld skoða nú fyrir alvöru þann möguleika að segja skilið við innri markað Evrópusambandsins en áður hafði verið lögð áhersla á að leita leiða til þess að tryggja áframhaldandi þátttöku í innri markaðnum þrátt fyrir að Bretland segði skilið við sambandið. Var horft til Noregs í því sambandi sem er þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins ásamt Íslandi og Liechtenstein í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að þessi breyting hafi átt sér stað í kjölfar viðræðna breskra ráðamanna við forystumenn í viðskiptalífi Bretlands þar sem farið hefði verið ítarlega yfir það hvernig breskir hagsmunir yrðu best tryggðir utan Evrópusambandsins. Pólitískt er talið að bresk stjórnvöld muni eiga erfitt með að semja um hliðstætt fyrirkomulag og EES-samninginn af pólitískum ástæðum enda þyrfti Bretland þá að sætta sig við frjálsa för fólks, taka upp reglur einhliða frá Evrópusambandinu og greiða háar upphæðir til sambandsins.

Samtök breskra banka vilja að Bretland segi skilið við innri markað Evrópusambandsins en haldi hins vegar greiðum aðgangi að honum. Það þýddi að bresk stjórnvöld stjórnuðu því hvaða regluverk væri í gildi í Bretlandi og á sama tíma hefðu viðskiptavinir bankanna í ríkjum sambandsins aðgang að fjármálalífi landsins. Haft er eftir Anthony Browne, framkvæmdastjóra samtakanna, að þau vilji þannig fullan tvíhliða aðgang að markaði Evrópusambandsins.

Browne segir að EES-samningurinn myndi fela í sér mesta fyrirsjáanleika fyrir banka og viðskiptavini þeirra þar sem sama fyrirkomulag myndi gilda áfram um aðgengi að innri markaði Evrópusambandsins. „Hins vegar þýddi það að Bretland yrði að taka upp regluverk um fjármálastarfsemi án þess að hafa nokkur áhrif á það.“ Slíkt væri ekki ásættanlegt fyrirkomulag fyrir stærstu fjármálamiðstöð heimsins og gæti valdið alvarlegum vandamálum í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert