Rúmlega tvítugur maður hefur verið handtekinn í Toulouse í tengslum við morðið á presti í Normandí í síðasta mánuði.
Maðurinn sem var handtekinn á mánudaginn er 21 árs og herma heimildir innan úr röðum lögreglunnar að hann hafi verið í sambandi við morðingjana, Abdel Malik Petitjean og Adel Kermiche, en báðir lýstu yfir hollustu við vígasamtökin Ríki íslams skömmu áður en þeir réðust inn í kirkjuna.
Árásarmennirnir létu prestinn, Jacques Hamel 85 ára, krjúpa við altarið fyrir framan kirkjugesti og skáru hann á háls. Árásarmennirnir, sem báðir voru nítján ára, voru skotnir til bana af lögreglu.
Frændi Petitjeans, Farid K., hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 31. júlí, sakaður um að tengjast hryðjuverkastarfsemi.
Kermiche bjó skammt frá kirkjunni en hann var með rafrænt ökklaband sem var slökkt á þegar árásin var gerð. Hann og Petitjean kynntust í gegnum dulkóðuð skilaboð á Telegram.