Dómur yfir Dassey ógiltur

Brendan Dassey var dæmdur í fangelsi árið 2005 fyrir morðið …
Brendan Dassey var dæmdur í fangelsi árið 2005 fyrir morðið á Teresu Hallbach.

Dómari í Bandaríkjunum hefur ógilt fangelsisdóminn yfir Brendan Dassey sem þekktur er úr þáttunum Making a Murderer. Dassey var ásamt frænda sínum Steven Avery dæmdur í fangelsi árið 2005 fyrir morðið á Teresu Hallbach. 

Dómarinn sagði við dómsuppkvaðningu að vinnubrögð fyrrum verjanda Dasseys hafi verið hræðileg og sagði hann að Len Kachinsky sem upphaflega var skipaður verjandi Dasseys hafi eytt meiri tíma í að tala við fjölmiðla en að vinna í máli Dasseys. 

Kachinsky hlaut mikla gagnrýni eftir að þættirnir komu út og þótti mörgum það sannað að hann hafi ekki veitt Dassey þá vörn og aðstoð sem honum bar að veita. Fyrstu vikuna eftir að Dassey var handtekinn eyddi Kachinsky tíu klukkustundum í að ræða við fjölmiðlamenn en aðeins klukkustund í að ræða við Dassey.

Sjá frétt mbl.is: Sitja límdir yfir vafasömu morðmáli

Þá gagnrýndi dómarinn einnig ákæruvaldið í málinu og sagði að játningin sem Dassey gaf hafi augljóslega veri þvinguð fram. Þá hafi þeir lofað honum stuðningi ef hann myndi viðurkenna glæpinn en ekkert bólaði á þeim stuðningi eftir að játningin lá fyrir. 

Dassey var 16 ára þegar morðið á Teresu Hallbach var framið og hefur hann setið í fangelsi frá þeim tíma. 

Nú verður ákæruvaldið að ákveða hvort þeir ákæri Dassey aftur og taka þá ný réttarhöld við. Geri þeir það ekki, verður Dassey frjáls maður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert