Neyðarástand í Púertó Ríkó

Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna.
Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi í Púertó Ríkó vegna útbreiðslu Zika-veirunnar svonefndu. Segja þau veiruna ógna heilsu íbúa eyjunnar, sér í lagi barnshafandi kvenna og ófæddra barna.

3,5 milljónir manna búa á eyjunni en alls hafa þar verið skráð 10.690 tilvik zika-smits, þar á meðal 1.035 í barnshafandi konum, að því er segir í frétt Reuters.

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld segja þó að líklegt sé að fjöldi sýktra sé mun hærri, þar sem mörg tilvik séu hvorki skráð né tilkynnt.

Bandaríkjamenn hyggjast styðja stjórnvöld í Púertó Ríkó í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar, meðal annars með fjárframlögum.

Zika-veiran berst með moskítóflugum af tegundinni Aedes aegypti og smitast á milli manna þegar flugurnar sjúga blóð. Helstu einkenni sýkingarinnar eru hiti, útbrot, tárubólga og vöðvaverkir. Einkenni koma yfirleitt fram tveimur til sjö dögum eftir bit og standa yfir í tvo til sjö daga.

Talið er að aðeins um einn af hverjum fjórum sem smitast af veirunni sýni einkenni.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert