Skakki turninn skotmark hryðjuverkamanns

Skakki turninn í Písa.
Skakki turninn í Písa. Wikipedia/Saffron Blaze

Tuttugu og sex ára Túnisbúa var í gær vísað frá Ítalíu eftir að upp komst um áætlanir hans um hryðjuverkaárás á skakka turninn í Písa. Frá þessu greina ítalskir fjölmiðlar.

Bilel Chiahoui var handtekinn á fimmtudaginn eftir að hafa skrifað skilaboð á samfélagsmiðla þar sem hann dáðist að framgöngu hryðjuverkamanna í Evrópu. Sagðist hann ætla að framkvæma árás á hinn sögufræga turn í Písa í Flórens. 

Dómari á Ítalíu undirritaði í gær skjal sem gerir yfirvöldum kleift að vísa manninum úr landi. Taldi dómarinn að fyrir lægju sannanir fyrir því að um væri að ræða öfgamann sem bæri taugar til hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Í tilkynningu frá lögreglunni um málið kom ekki fram hvers konar árás maðurinn hafði ætlað sér að framkvæma. 

Á undanförnum vikum hafa fleiri grunaðir hryðjuverkamenn á Ítalíu verið sendir úr landi. Brottvísanirnar hafa verið fyrirskipaðar af innanríkisráðherra landsins, Angelino Alfano.

Sjá frétt The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert