Til átaka kom á Korsíku um helgina milli innfæddra og fjölskyldna af norðurafrískum uppruna. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvað varð til þess að átökin brutust út en talið er að það megi rekja til þess að ferðamenn tóku myndir af konum sem voru í búrkínum á ströndinni á frönsku Miðjarðarhafseyjunni. Búrkínur eru baðfatnaður sem hylur líkamann og er vinsæll baðfatnaður meðal múslímakvenna.
Bæjarstjórinn í korsíska bænum Sisco fylgdi í dag í kjölfar borgarstjóranna í Cannes og Villeneuve-Loubet sem hafa lagt bann við slíkum baðfatnaði. Átökin brutust út í Sisco á laugardag á milli þriggja fjölskyldna af norðurafrískum uppruna og unglinga í bænum. Afar misvísandi fréttir hafa borist af átökunum en ljóst er að fimm meiddust og talsvert eignatjón varð þegar slegist var á götum úti í bænum. Meðal annars var kveikt í þremur bílum áður en um eitt hundrað lögreglumenn skárust í leikinn.
Í gær tóku um 500 manns þátt í mótmælagöngu í borginni Bastia en saksóknari þar hefur hafið rannsókn á upptökum átakanna á laugardag. Bæjarstjórinn í Sisco, Pierre-Ange Vivoni, segir að búrkíní-bannið taki gildi á morgun.
Búrkíni-deilan hefur vakið háværa umræðu í Frakklandi þar sem gagnrýnendur segja að fatnaðurinn gangi gegn veraldlegum meginreglum í frönsku samfélagi á meðan andstæðingar þjóðernishyggju segja að með því að banna konum að klæðast slíkum baðfatnaði sé ekkert annað en mismunun. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem klæðaburður múslíma veldur deilum í Frakklandi en búrku- og höfuðklútabann (þar sem andlit kvenna er hulið) hefur gilt þar í landi um árabil.
Árásir íslamskra öfgamanna í Frakklandi undanfarin misseri hefur ekki dregið úr spennunni í landinu milli þjóðernissinna og fjölmenningarsinna.
Fólkið sem tók þátt í mótmælunum í Bastía í gær reyndi að komast inn í Lupino, sem er í úthverfi Bastia, en fjölmargir íbúanna þar koma frá Norður-Afríku. Lögregla lokaði bænum af og neitaði mótmælendunum, um 500 manns, inngöngu. Halda átti hátíð í Sisco í dag en ákveðið hefur verið að aflýsa henni. Bæjarstjórinn segir að það sé ekki gert í öryggisskyni heldur af því að bæjarbúar séu ekki rétt stemmdir fyrir hátíðarhöld.
Ítrekað hefur komið til átaka á milli múslíma og þjóðernissinna á Korsíku undanfarna mánuði. Í desember voru unnin skemmdarverk á bænasal múslíma í borginni Ajaccio og eintök af kórarninum rifin. Kveikjan að þessu var árás sem gerð var á slökkviliðsmenn í borginni og voru ungmenni af arabískum uppruna sökuð um árásina.
Í síðasta mánuði kröfðust korsískir þingmenn þess að franska ríkið myndi loka moskum sem öfgamenn sækja á eyjunni eftir að aðskilnaðarhreyfing Korsíkubúa hótaði íslömskum öfgasinnum. Um er að ræða klofningshóp úr þjóðernishreyfingu Korsíku (FLNC) sem hótuðu öfgasinnuðum íslamistum því að ef gerð yrði árás á eyjunni þá myndi það þýða harkaleg viðbrögð þar sem engin miskunn yrði sýnd.