Starfslið kosningabaráttu Donalds Trump verður að gera grein fyrir öllum tengslum sínum við Rússland, að sögn kosningastjóra Hillary Clinton. Oft hefur verið rætt um tengsl Trump við Rússland í kosningabaráttunni en nýjar ásakanir eru nú komnar fram um að stjórnmálaflokkur í Úkraínu sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum hafi sent kosningastjóra hans fé um nokkurra ára skeið.
Lögmaður Pauls Manafort, kosningastjóra Trump, neitar því að hann hafi þegið fé frá flokknum á árunum 2007 til 2012. New York Times sagði frá því í gær að höfuðbók hefði fundist í Úkraínu þar sem skráðar voru óútskýrðar greiðslur til Manafort í reiðufé. Greiðslurnar námu 12,7 milljónum dollara.
Manafort er sagður hafa unnið sem ráðgjafi fyrir fyrrverandi forseta Úkraínu, Viktor Janúkovitsj. Höfuðbókin er sögð hafa fundist í aðgerðum nýrrar ríkisstofnunar sem berst gegn spillingu í Úkraínu. Hún hefur ekki komist að niðurstöðu um hvort greiðslurnar hafi í raun borist Manafort. Rannsóknin beinist einnig að milljónaviðskiptasamningum sem fyrirtæki á vegum hans höfðu milligöngu um.
Frétt mbl.is: Trump grandalaus erindreki Pútíns?
„Donald Trump ber skylda til þess að upplýsa um öll tengsl kosningastjórans Pauls Manafort og allra annarra starfsmanna og ráðgjafa framboðsins við Rússland eða hópa sem styðja stjórnvöld í Kreml, þar á meðal hvort einhver af starfsmönnum eða ráðgjöfum Trump komi fram eða fái greitt frá þeim þessa stundina,“ segir Robby Mook, kosningastjóri Clinton.
Demókratar hafa sakað Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um að styrkja kosningabaráttu Trump. Mook bendir á að grunur leiki á að það hafi verið rússneskir tölvuþrjótar sem brutust inn í tölvukerfi flokksins og birtu vandræðaleg skjöl sem leiddu meðal annars til þess að formaður flokksstjórnar flokksins sagði af sér. Hún var sökuð um að hafa unnið gegn framboði Bernie Sanders á bak við tjöldin.
Trump sjálfur sætti mikilli gagnrýni þegar hann virtist hvetja rússneska tölvuþrjóta til dáða. Sagðist hann vonast til þess að þeir myndu hafa uppi á tölvupóstum sem Hillary Clinton sendi á einkatölvupóstþjóni þegar hún var utanríkisráðherra.