Stjórnvöld í Frakklandi hafa komið til varnar nokkrum bæjarfélögum í landinu, sem lagt hafa bann við því að strandgestir klæðist svonefndu búrkíní. Þau hvetja bæjarstjóra þó til að reyna að draga úr spennu milli ólíkra samfélagshópa.
Strandbæirnir Cannes og Villeneuve-Loubet, sem eru við strönd Miðjarðarhafsins og Sisco á eyjunni Korsíku, hafa bannað strandgestum að klæðast búrkíní og segir Reuters-fréttastofan bæjaryfirvöld í Le Touquet, sem er við strönd Atlantshafsins, nú hugleiða að gera það sama.
Það eru aðallega íhaldssamir bæjarstjórar sem hafa bannað búrkíníið – sem hylur líkamann utan handa, fóta og andlits – og segja þeir klæðnaðinn brjóta gegn frönskum lögum.
Búrkíní-deilan er sérlega eldfimt mál í Frakkland, en aukin spenna er milli ólíkra þjóðfélagshópa í landinu eftir árásir íslamskra öfgatrúarmanna í París í nóvember, þar sem 130 manns fórust, og svo í Nice í síðasta mánuði þar sem 84 fórust er flutningabíl var ekið inn í mannþröng.
Laurence Rossignol, kvenréttindaráðherra frönsku stjórnarinnar, sagði að bann bæjarfélaganna við búrkínínu ætti ekki að skoðast í ljósi hryðjuverkaógnar en lýsti engu að síður yfir stuðningi við það.
„Búrkíníið er ekki ný sundfatatíska. Það strandútgáfa af búrkunni og sömu rök liggja þar að baki – að fela líkama kvenna svo betur megi stjórna þeim,“ sagði Rossignol í viðtali við franska dagblaðið Le Parisien.
Frönsk stjórnvöld bönnuðu árið 2010 að konur klæddust búrkum og niqab, eins konar búrku sem einnig hylur andlitið, á almannafæri. Talið er að um 5 milljónir múslima búi í Frakklandi og eru múslimar hvergi í Evrópu fjölmennari minnihlutahópur.
Rossignol sagði búrkíníið valda deilum á frönskum ströndum vegna þeirrar pólitísku víddar sem fælist í klæðnaðinum.
„Þetta er ekki bara mál kvennanna sem klæðast því, af því að það er táknmynd stjórnmálasýnar sem er andsnúin fjölbreytileika og frelsi kvenna,“ sagði hún.
Á laugardag kom til átaka milli ungra Korsíkubúa og múslimskrar fjölskyldu á ströndinni í Sisco eftir að ferðamaður tók myndir af konum að synda í búrkíní. Bæjarstjórinn í Sisco bannaði búrkíní á ströndinni strax daginn eftir.