Sonur eiturlyfjabarónsins Joaquin „El Chapo“ Guzman var á meðal þeirra sem var rænt af öldurhúsi í borginni Puerto Vallarta í Mexíkó í gær. Þetta hafa mexíkósk yfirvöld staðfest.
Fram kemur í frétt AFP að sjö vopnaðir karlmenn hafi ekið upp að öldurhúsinu við sólarupprás og haft á brott með sér sex einstaklinga. Yfirvöld telja að mannránið sé hluti af uppgjöri á milli glæpahringja. Sonurinn heitir Jesus Alfredo Guzman Salazar og er 29 ára gamall.
Haft er eftir saksóknaranum Eduardo Almaguer að kennsl hafi verið borin á fjóra af þeim sex sem rænt var. Þar á meðal Guzman Salazar.