Banna Pokémon í bænum

Bannað er að leita að Pokémon á svæði sem herinn …
Bannað er að leita að Pokémon á svæði sem herinn hefur yfir að ráða í Lille. AFP

Bæjarstjórinn í franska smábænum Bressolles hefur ekki lagt á búrkíní-bann í bænum en hann hefur bannað snjalltækjaleikinn Pokémon Go. Þar fylgir hann í fótspor stjórnvalda í Íran sem einnig hafa bannað leikinn.

Í frétt The Local kemur fram að bæjarstjórinn, Fabrice Beauvois, Pokémon Go sé einfaldlega ógn við bæinn en alls eru bæjarbúar 800 talsins. Bannið var sett í Bressolles í dag og hefur bæjarstjórinn haft samband við framleiðanda leiksins, Niantic, og beðið um að bærinn verði þurrkaður út af Pokémon kortinu.

Beauvois segir leikinn valda of mikilli truflun á gangstéttum bæjarins og eins ökumenn vélhjóla sem stari á skjái síma sinna á sama tíma og þeir keyra. Það sé skylda hans að verja bæjarbúa fyrir „smitandi og skefjalausa dreifingu fyrirbærisins svo ekki sé talað um hættulega fíkn sem steðji að ungu fólki,“ svo hans eigin orð séu notuð.

Hann hvetur fólk til þess að mynda hópa sem hafi það hlutverk að koma í veg fyrir að fólki spili leikinn. Í Frakklandi má rekja nokkur slys til Pokémon spilara sem eru einnig undir stýri. Má þar nefna tvö bílslys þar sem ökumenn reyndust vera í leiknum þegar þeir óku á. Eins hafa nokkur ungmenni verið handtekin í Suður-Frakklandi eftir að hafa ruðst inn á lögreglustöðvar og reynt að veiða Pokémon þar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert