Ekkert búrkíní-bann á Ítalíu

Áströlsk fyrirsæta í búrkíni
Áströlsk fyrirsæta í búrkíni AFP

Ekki verður heimilt að banna konum að klæðast búrkíni á Ítalíu segir innanríkisráðherra Ítalíu. Hins vegar er stefnt að því að herða reglur varðandi bænapresta og moskur á Ítalíu.

Angelino Alfano, innanríkisráðherra Ítalíu, segir í viðtali við Corriere della Sera að með því að banna sundfatnaðinn sé verið að ögra fólki og ekki vitað hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér. Slíkt bann kunni ekki góðri lukku að stýra. 

Aftur á móti muni hann leggja fram frumvarp til laga í næsta mánuði sem er ætlað að auka öryggi landsmanna. Það sé ekki gert með því að banna sundfatnað múslíma.

Hann segist vilja sjá alla bænapresta (imam) hljóta þjálfun á Ítalíu og að starfsemi moska sé í samræmi við ítölsk lög. Hann segist vera búinn að fá sig fullsaddann af heimatilbúnum moskum sem starfi í bílskúrum hér og þar. 

Alfano hefur látið vísa níu bænaprestum úr landi í ár sem lágu undir grun um að boða öfga-íslam. Hann verði að vera raunsær því ekki sé hægt að koma fram við eina og hálfa milljón múslíma sem búi á Ítalíu sem hryðjuverkamenn eða stuðningsmenn hryðjuverkasamtaka en á sama tíma verði að sýna hörku því það sé stór munur á milli þess að biðja og hvetja til haturs og ofbeldis.

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, blandaði sér inn í búrkíní-umræðuna í gær þegar hann sagði að klæðnaðurinn væri ekki í samræmi við gildi Frakklands og lýðræðisins. Hann segist styðja borgarstjóra sem hafa bannað konum að klæðast búrkíníum í bæjum sínum og borgum svo lengi sem bannið sé sett í þágu almennings. Alls hafa sex borgar- og bæjarstjórar í Frakklandi bannað konum að klæðast búrkíní á baðströndum og við sundlaugar.

Hvað er búrkíní?

<span>Búrkíni - sem tengir saman tvö orð: búrku og bíkíní - er sundfatnaður sem hannaður er fyrir konur. Hönnuninni er ætlað að vera í samræmi við leiðbeiningar kóransins um klæðaburð kvenna sem eru íslamtrúar. Búrkíni hylur líkamann að öllu leyti nema andlit, hendur og og fætur og er það léttur fatnaður að hann hentar vel til sunds. Búrkíní svipar útlitslega til blautbúninga en er úr sama efni og hefðbundinn sundfatnaður.</span>
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert