Ekki verður heimilt að banna konum að klæðast búrkíni á Ítalíu segir innanríkisráðherra Ítalíu. Hins vegar er stefnt að því að herða reglur varðandi bænapresta og moskur á Ítalíu.
Angelino Alfano, innanríkisráðherra Ítalíu, segir í viðtali við Corriere della Sera að með því að banna sundfatnaðinn sé verið að ögra fólki og ekki vitað hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér. Slíkt bann kunni ekki góðri lukku að stýra.
Aftur á móti muni hann leggja fram frumvarp til laga í næsta mánuði sem er ætlað að auka öryggi landsmanna. Það sé ekki gert með því að banna sundfatnað múslíma.
Hann segist vilja sjá alla bænapresta (imam) hljóta þjálfun á Ítalíu og að starfsemi moska sé í samræmi við ítölsk lög. Hann segist vera búinn að fá sig fullsaddann af heimatilbúnum moskum sem starfi í bílskúrum hér og þar.
Alfano hefur látið vísa níu bænaprestum úr landi í ár sem lágu undir grun um að boða öfga-íslam. Hann verði að vera raunsær því ekki sé hægt að koma fram við eina og hálfa milljón múslíma sem búi á Ítalíu sem hryðjuverkamenn eða stuðningsmenn hryðjuverkasamtaka en á sama tíma verði að sýna hörku því það sé stór munur á milli þess að biðja og hvetja til haturs og ofbeldis.
Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, blandaði sér inn í búrkíní-umræðuna í gær þegar hann sagði að klæðnaðurinn væri ekki í samræmi við gildi Frakklands og lýðræðisins. Hann segist styðja borgarstjóra sem hafa bannað konum að klæðast búrkíníum í bæjum sínum og borgum svo lengi sem bannið sé sett í þágu almennings. Alls hafa sex borgar- og bæjarstjórar í Frakklandi bannað konum að klæðast búrkíní á baðströndum og við sundlaugar.