Donald Trump hefur ráðið einn stjórnenda íhaldssömu fréttasíðunnar Breitbart og veitt ráðgjafa sínum stöðuhækkun í hrókeringum sem er ætlað að koma framboði hans á réttan kjöl eftir stormasamar vikur að undanförnu. Þetta er í annað skipti á tveimur mánuðum sem Trump stokkar upp í starfsliði sínu.
Stephen Bannon, stjórnarformaður Breitbart News LLC, verður framkvæmdastjóri framboðs Trump og Kellyanne Conway, sem hefur verið háttsettur ráðgjafi og skoðanakönnuður fyrir Trump, tekur við sem kosningastjóri.
Frétt mbl.is: Upplýsi um tengsl við Rússa
Þó að Paul Manafort, sem hefur gegnt stöðu kosningastjóra, haldi titli sínum telja fréttaskýrendur breytingarnar í raun vera stöðulækkun fyrir hann. Manafort hefur verið í fréttum síðustu daga eftir að hann var bendlaður við bandamenn rússneskra stjórnvalda í Úkraínu.
Tilfæringarnar eru sagðar sýna að Trump geri sér grein fyrir að framboð hans sé í vanda statt. Hann hefur legið undir mikill gagnrýni vegna sérlega umdeildra ummæla sem hann hefur látið falla í sumar. Þeirra á meðal eru það sem margir hafa túlkað sem hvatningu til rússneskra stjórnvalda um að brjótast inn í tölvupóst Hillary Clinton og til byssueigenda í Bandaríkjunum um að beita vopnavaldi gegn frambjóðanda demókrata.
Frétt mbl.is: Ákæra ekki kosningastjóra Trump
Breitbart-fréttasíðan hefur verið hliðholl Trump frá því að hann hóf þátttöku í forvali Repúblikanaflokksins. Athygli vakti þegar blaðakona Breitbart sakaði fyrrverandi kosningastjóra Trump, Cory Lewandowski, um að hafa togað harkalega í sig þegar hún reyndi að bera upp spurningu við frambjóðandann. Trump sakaði hana meðal annars um að ljúga til um það jafnvel þó að myndbandsupptökur virtust staðfesta frásögn hennar. Hún sagði upp störfum þegar hún taldi stjórnendur fjölmiðilsins ekki standa með sér eftir atvikið.