Tilviljun eða tengdir atburðir?

Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. AFP

Bandarísk stjórnvöld neituðu að afhenda írönskum stjórnvöldum fjármuni að upphæð 400 milljónir dollara fyrr en fjórir Bandaríkjamenn höfðu verið leystir úr haldi í landinu í janúar. Þetta segir bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal að komi fram í nýjum upplýsingum um málið. Þær sýni fram á vandlega skipulagða áætlun sem snúist hafi um lausn fanganna. Upplýsingarnar komi frá bandarískum embættismönnum og öðrum sem upplýstir hafi verið um málið.

Fram kemur í frétt blaðsins að flogið hafi verið með fjármunina, sem hafi verið í evrum, svissneskum frönkum og öðrum gjaldmiðlum, til Írans í ómerktri flutningavél að sögn embættismannanna. Peningarnir hafi verið fengnir hjá seðlabönkum Hollands og Sviss en þeir hafi verið fyrsta greiðsla ríkisstjórnar Baracks Obama Bandaríkjaforseta vegna samkomulags við stjórnvöld í Íran um lausn áratugagamals deilumáls vegna vopnasölusamnings sem undirritaður var skömmu áður en keisara landsins var steypt af stóli árið 1979.

Keisarastjórnin hafði lagt 400 milljónir dollara inn á reikning í Bandaríkjunum til þess að greiða fyrir vopnakaup en vopnin, þar á meðal orrustuþotur, voru hins vegar ekki afhent í kjölfar byltingarinnar. Fjármunirnir voru einnig sendir til Írans um sama leyti og gengið var frá samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írans. Íranskir fjölmiðlar hafa fullyrt að flugvélin með fjármunina hafi lent í Íran á sama tíma og fangarnir hafi yfirgefið landið.

Bandarískir ráðamenn hafa hafnað því að greiðsla fjármunanna tengist lausn fanganna á nokkurn hátt. Einungis hafi verið um að ræða lausn á gömlu deilumáli sem verið hafi í meðferð alþjóðlegra dómstóla. Fjölmiðlar í Íran hafa hins vegar meðal annars eftir íranska hershöfðingjanum Mohammad Reza Naghdi að bandarísk stjórnvöld hafi látið undan kröfum Írana og að bein tengsl væru á milli greiðslu fjármunanna og gíslamálsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert