Fáir voru viðbúnir flóðunum

AFP

Talið er að flóðin í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum undanfarna daga hafi valdið skemmdum á um 40 þúsund heimilum samkvæmt fréttavef NPR-fréttaveitunnar. Um 86 þúsund manns hafa óskað eftir aðstoð alríkisstjórnarinnar vegna afleiðinga náttúruhamfaranna sem sumir hafa líkt við eyðilegginguna sem fellibylurinn Katrín olli fyrir rúmum áratug.

Fram kemur í fréttinni að flóðin hafi náð yfir 20 sýslur í Louisiana-ríki. Embættismenn vinna nú að því að finna leiðir til þess að útvega þeim sem misstu heimili sín bráðabirgðahúsnæði þar sem erfitt er að koma þeim fyrir í húsnæði sem þegar er fyrir hendi. Ástæðan er einfaldlega hversu stór hluti húsnæðis á svæðinu er ekki lengur nothæfur.

AFP

Hamförunum er ekki lokið. Þótt flóðin séu víða í rénun fer vatnsyfirborðið sums staðar enn hækkandi. Vitað er að 13 manns létu lífið í flóðunum. Um 30 þúsund manns hefur verið bjargað. Til stendur að hefja á ný leit að fólki á flóðasvæðunum. Farið verður hús úr húsi til þess að kanna hvort einhverjir sitji þar fastir og hafi ekki getað kallað eftir aðstoð.

Flóðin komu mörgum á óvart og voru fáir ef einhverjir undir það búnir. Varað var við aukinni úrkomu og hættu á flóðum en fáir virðast hafa búist við því magni sem raunin varð. Þá urðu flóð á svæðum sem sögulega séð hafa ekki upplifað slíkt. Fólk á slíkum svæðum er fyrir vikið ekki tryggt fyrir flóðum enda ekki gert ráð fyrir slíkum hamförum.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki sent frá sér tilkynningu vegna flóðanna eða heimsótt hamfarasvæðin en hann er staddur í fríi. Kallað hefur verið eftir því að hann geri hlé á fríinu og heimsæki svæðin en ekki liggur fyrir hvort og þá hvenær verði af því. 

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert