Fjöldi látinna kominn í 86

AFP

Karlmaður sem særðist í hryðjuverkaárásinni í borginni Nice í Frakklandi í síðasta mánuði er látinn af sárum sínum. Frönsk stjórnvöld tilkynntu þetta í dag samkvæmt frétt AFP. Fjöldi látinna í árásinni er þar með orðinn 86. 

Fram kemur í fréttinni að maðurinn láti eftir sig eiginkonu og tvö börn. Rúmlega 400 manns særðust enn fremur þegar Mohamed Lahouaiej Bouhlel ók vörubifreið á fjölda fólks sem var saman kominn í borginni til þess að fagna þjóðhátíðardegi Frakka.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu í kjölfarið ábyrgð á árásinni á hendur sér. Rannsóknarlögreglumenn hafa ekki fundið sannanir fyrir því að Bouhlel hafi tengst samtökunum en hann var hins vegar heillaður af hugmyndinni um heilagt stríð og hafði undirbúið árásina mánuðum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert