Gestur Ólafsson, stærðfræðiprófessor við ríkisháskólann í Louisiana, og þýsk eiginkona hans, Minka Kuss, eru á meðal þeirra tugþúsunda íbúa í Louisiana-ríki sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna skemmda af völdum flóðanna. Þau tóku hundana sína tvo með sér; Pinot Noir, oftast kallaður Pinot, og tíkina Kötlu.
Frétt mbl.is: Fáir voru viðbúnir flóðunum
Í frétt mbl.is frá í gær segir að flóðin hafi náð yfir 20 sýslur í ríkinu og vinna embættismenn að því að finna leiðir til að útvega þeim sem misstu heimili sín bráðabirgðahúsnæði. Gestur og eiginkona hans halda til hjá vinahjónum sínum í Colorado en manninum kynntist Gestur þegar þeir störfuðu báðir við stærðfræðideild háskólans. Þeir spila saman póker einu sinni í mánuði og hjónin skiptast á að bjóða í mat á föstudögum yfir vetrartímann.
„Þetta svæði sem ég bý á er talið nokkuð öruggt gagnvart flóðum því engar stórar ár eru nálægt, fyrir utan Mississippi,“ segir Gestur en hann býr í Saint Gabriel í Iberville Parish, rétt sunnan við Baton Rouge. „Árnar sem flæða venjulega eru vel austan við okkur og verst er áin Amite sem flæðir oft.“
Gestur segir ástæðu flóðanna núna vera að vatnsmagnið í Amite hefði verið svo mikið að árnar sem runnu í Amite urðu bakkafullar og flæddi upp fyrir. „Vatnið rann yfir götuna og þaðan í Alligator Bay og Spanish Lake. Eftir það var leiðin auðveld til okkar,“ segir hann. „Við yfirgáfum húsið að morgni mánudags og bjuggumst þá við að vera lengi að heiman. Við fórum aftur í húsið á þriðjudag og þá var vatnið orðið vel sjáanlegt í garðinum okkar, síðan hélt það áfram að hækka og hækka.“
Gestur hefur búið í húsinu ásamt eiginkonu sinni í 13 ár og var húsið byggt fyrir tæpum 40 árum. „Húsin í kringum okkur skemmdust ekkert. Húsið okkar var eitt af þeim fyrstu sem voru byggð og þá voru engar reglur um hversu hátt ætti að byggja. Í dag verður að byggja húsin þannig að þau standi hærra en gatan,“ segir Gestur. Hann segir að í húsinu sé vatnið um 20 sentímetrar að hæð og flest húsgögnin ónýt.
„En okkur tókst þó að bjarga ísskápnum. Sófar og stólar eru ónýtir, og gólfið líka. Við unnum að því að koma fatnaði, myndum og bókum út og á morgun eru það sjónvarpið og önnur raftæki. Tölvuna tók ég með mér þegar við fórum,“ segir hann.
„Við fáum lítið bætt. Tryggingarnar hérna bæta ekki tjón af völdum flóða. Það þarf að tryggja sérstaklega. Við sáum aldrei ástæðu til þess þar sem svæðið var talið nokkuð öruggt. En ég er búinn að skrá mig hjá FEMA og fólk frá þeim kemur á morgun til að skoða húsið,“ segir hann en FEMA er tryggingarsjóður vegna tjóna af völdum flóða.
„Það er ómögulegt að segja hvenær við komumst heim. Vatn kemst varla inn og þar með kemst það ekki heldur út. Trúlega verður gert gat í götuna þar sem vatnið kom yfir til að hleypa því út. Það tekur trúlega nokkra daga og er þá hægt að fara að rífa út gólfið og hluta af veggjunum. eftir það verður húsið að þorna og þá er hægt að fara í viðgerðir,“ segir Gestur. Spurður út í lífið í Louisiana vegna flóðanna segir hann alla vera í miklu áfalli og vinna að því að lagfæra hús sín vegna flóðanna.
Gestur fluttist frá Íslandi árið 1974 til að læra stærðfræði í Göttingen í Þýskalandi þar sem hann kynntist konu sinni. Hann hefur verið í Bandaríkjunum við stærðfræðideildina síðan 1993. Hann var við Háskóla Íslands árið 1983 eftir að hafa lokið doktorsnámi en honum var boðin staða í Göttingen um haustið svo hann fluttist út að nýju. Árið 1991 fluttist hann til Hróarskeldu í Danmörku þar sem hann bjó í tvö ár þar til að förinni var heitið til Louisiana.