Óttast er að í það minnsta 22 hafi látið lífið og yfir níutíu særst í sprengjuárás sem gerð var á brúðkaup í borginni Gaziantep í suðurhluta Tyrklands í kvöld.
Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá þessu.
Ali Yerlikaya, borgarstjórinn í Gaziantep, segir að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.
„Fólk missti líf sitt og við höfum upplýsingar sem benda til þess að þetta hafi verið sprengjuárás,“ sagði Mehmet Erdogan, þingmaður Jafnréttis- og þróunarflokksins.
Samil Tayyar, tyrkneskur ráðherra úr röðum Jafnréttis- og þróunarflokksins, AK, sagði á Twitter-síðu sinni í kvöld að talið væri að vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hefðu staðið að baki árásinni.
Gaziantep er í um 64 kílómetra fjarlægð frá landamærum Tyrklands og Sýrlands. Tveir lögregluþjónar féllu í sjálfsmorðsárás í borginni í maímánuði.
Nokkuð hefur verið um mannskæðar sprengjuárásir í suðurhluta Tyrklands á undanförnum tólf mánuðum. Hafa þær annaðhvort tengst kúrdískum vígamönnum eða Ríki íslams, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.
Þrír vígamenn Ríkis íslams sprengdu sig í loft upp á alþjóðaflugvellinum í Istanbúl í júlímánuði með þeim afleiðingum að 44 létu lífið.
Uppfært klukkan 21.50:
Mehmet Simsek, varaforsætisráðherra Tyrklands, segir að sprengjuárásin hafi líklegast verið sjálfsmorðsárás.