Talið er að í það minnsta þrjátíu manns hafi látið lífið í sprengjuárásinni á brúðkaupsveislu í borginni Gaziantep í suðurhluta Tyrklands í gær.
94 manns særðust í árásinni, að sögn tyrkneskra yfirvalda.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að líklegt sé að vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hafi staðið að baki árásinni. Nokkrir tyrkneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að um sjálfsmorðsárás hafi verið að ræða, en yfirvöld í landinu hafa ekki staðfest það.
Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að nokkrar deildir á vegum Ríkis íslams starfi í borginni, sem er nálægt landamærum Sýrlands og Tyrklands.
Tveir lögregluþjónar létu lífið í sjálfsmorðsárás í borginni í maímánuði.
Fram kemur í frétt AFP að margir Kúrdar búi í hverfinu þar sem sprengjan hafi sprungið. Eins virðist sem svo að margir Kúrdar hafi verið gestir í brúðkaupsveislunni.
Nokkuð hefur verið um sprengjuárásir í Tyrklandi undanfarna tólf mánuði. Eins og kunnugt er féllu yfir fjörutíu manns í sprengjuárás sem gerð var á alþjóðaflugvöllinn í Istanbúl í júnímánuði.
Í frétt breska ríkisútvarpsins er bent á að vígamenn Ríkis íslams hafi nýlega verið hraktir burt frá nokkrum svæðum í norðurhluta Sýrlands, þar á meðal borginni Manbij, sem var áður eitt höfuðvígja þeirra.
Ef rétt reynist að Ríki íslams beri ábyrgð á árásinni í gærkvöldi, þá telja sérfræðingar að um hefndarverk hafi verið að ræða. Ætlunin hafi verið að sýna fram á mátt samtakanna.
Í sérstakri skriflegri yfirlýsingu sem Erdogan forseti sendi frá sér í nótt sagði hann að „enginn munur“ væri á Ríki íslams og vígamönnum kúrdíska verkamannaflokksins, PKK, annars vegar og stuðningsmönnum klerksins Fethullah Gulen, sem hann sakar um að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni í síðasta mánuði, hins vegar.
„Landið okkar hefur enn einu sinni aðeins ein skilaboð til þeirra sem ráðast á okkur: Ykkur mun mistakast!“ sagði Erdogans.
Frétt mbl.is: Mannfall í sprengjuárás í Tyrklandi