„Þeir breyttu brúðkaupinu í blóðbað,“ sagði brúðurin Besna Akdogan við fjölmiðla þegar hún yfirgaf sjúkrahúsið í Gaziantep í Tyrklandi í morgun. Sprengjuárás var gerð í brúðkaupinu í gær og er fjöldi látinna kominn upp í 51. Til viðbótar liggja 69 enn á sjúkrahúsi, þar af 17 þungt haldnir.
Flestir brúðkaupsgesta voru Kúrdar eins og brúðhjónin. Kúrdar eru mjög ósáttir við Recep Tayyip Erdogan og ríkisstjórn hans þar sem stjórnvöld gerðu ekkert til að fyrirbyggja að árásin yrði gerð þrátt fyrir aðvaranir Kúrda þess efnis að brúðkaupið yrði skotmark hryðjuverkamanna.
Fjöldi fólks safnaðist saman í borginni, sem er í suðausturhluta landsins nærri landamærunum við Sýrland, í dag til þess að syrgja fórnarlömb árásarinnar. „Skammastu þín, Erdogan,“ hrópaði fólk og kastaði vatnsflöskum í átt að lögreglu. HDP-flokkur Kúrda segist hafa varað við árásinni en talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda.
Barn á aldrinum 12 til 14 ára var íklætt sprengjuvestinu sem varð brúðkaupsgestum að bana að því er Erdogan sagði á blaðamannafundi í Istanbúl í morgun. Ekki er vitað hvort barnið hafi sjálft sett sprengjuna af stað eða hvort einhver annar hafi gert það. Ríki íslams og Kúrdar eru stríðandi fylkingar í átökunum sem geisa í Mið-Austurlöndum. Árásin sem gerð var í gær er sú mannskæðasta sem gerð hefur verið í Tyrklandi á árinu.
Mörg fórnarlamba árásanna voru jörðuð í dag. „Ég missti barnið mitt. Ég mun aldrei hitta það aftur,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir móður sem syrgði barn sitt fyrir framan fjöldagrafirnar í dag.