Hugtakið intersex er notað um þá einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að ytri eða innri kynfæri eða litningasamstæða samræmast ekki hinum hefðbundnu kynjum. Fólk með slíka kynferðistvíræðni fæðist með einkenni á milli beggja kynja, líffæri þeirra og líkamsbygging eru annaðhvort tvíræð eða bera mismikil karlkyns og kvenkyns einkenni.
Í heimi íþróttanna hefur verið deilt um rétt þessara einstaklinga til þess að keppa í íþróttagreinum sem skipt er í flokka eftir kynjum. Umræðuefnið er án efa afar viðkvæmt en álitamál sem tengjast því rísa gjarnan í kringum stóra íþróttaviðburði líkt og Ólympíuleikana. Því hefur verið haldið fram að karlmenn hafi reynt að keppa í flokki kvenna eða þá að intersex-einstaklingar búi yfir ákveðnum eiginleikum sem veiti þeim ósanngjarnt forskot á aðra keppendur eins og í tilfelli suðurafrísku hlaupakonunnar Caster Semenya. Semenya bar sigur úr býtum í 800 metra hlaupi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó.
Í gegnum tíðina hafa verið gerðar alls kyns prófanir á kynferði keppenda. Í fyrstu voru þetta læknisskoðanir en nú er farið að skoða litninga og hormón keppenda til þess að ákvarða kynferði þeirra. Semenya vann 800 metra hlaup kvenna á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Berlín 2009. Skömmu áður hafði Alþjóðafrjálsíþróttasambandið tilkynnt suður-afríska sambandinu að rannsókn væri hafin á því hvort Semenya uppfyllti skilyrði fyrir keppni í kvennaflokki. Framkvæmdar voru mælingar á magni testósteróns í líkama Semenyu til að athuga hvort hún færi yfir leyfilegt hámark sem valið var af handahófi. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri því til fyrirstöðu að Semenya keppti í kvennaflokki.
Í apríl 2011 tilkynnti sambandið nýjar reglur og fyrirkomulag þar sem testósterónmagn keppenda í kvennaflokki mætti ekki vera hærra en 10 nmol/L. Þeir keppendur sem færu yfir það magn þyrftu að taka hormón til að lækka magn testósteróns í líkamanum fyrir keppni. Þessi regla var í gildi þangað til í júlí 2015. Afnám reglunnar er lykilástæða þess að Semenya hóf keppni á ný.
Ástæða þess að reglan var afnumin er mál indversku spretthlaupakonunnar Dutee Chand sem vikið var úr keppni á leikum breska samveldisins árið 2014 vegna of mikils magns testósteróns í líkamanum. Chand áfrýjaði þeirri ákvörðun til gerðardóms sem sagði að þau gögn sem sýndu fram á að aukið magn testósteróns bætti frammistöðu kvenkeppenda væru ófullnægjandi. Gerðardómur afnam því regluna um testósterónmagn keppenda og skoraði á Alþjóðafrjálsíþróttasambandið að færa fram betri rök fyrir reglunni.
Í málatilbúnaði Chand sagði meðal annars að hún ætti ekki að þurfa að kenna á erfðafræðilegu forskoti sínu og að með reglunni sem innleidd var í apríl 2011 væri verið að mismuna konum þar sem magn testósteróns hjá karlmönnum væri ekki skoðað fyrir keppni. Þá sýndu lögmenn Chand fram á að 10 nmol/L af testósteróni væri tala valin af handahófi.
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur þangað til í júlí 2017 til þess að koma fram með sönnunargögn um hvers vegna testósterónmagn kvenkeppenda má ekki fara yfir 10 mnol/L. Þangað til geta intersex-keppendur líkt og Semenya og Chand keppt áhyggjulausir án þess að taka hormón til þess að minnka magn testósteróns í líkamanum.
Frétt The Guardian