Yfirvöld á Flórída hafa greint frá því að fimm ný tilfelli Zika-veirunnar hafi greinst í ríkinu, þar af eitt tilfelli á Tampa Bay-svæðinu sem er í rúmlega 400 km fjarlægð frá Miami, en öll fyrri tilfelli veirunnar sem greinst hafa á Flórída voru í Miami og nágrenni.
Hin tilfellin fjögur greindust öll í Wynwood á Miami þar sem búið er að úða með skordýraeitri.
Konan sem greindist með Zika-veiruna á Tampa, í Pinellas-sýslu á Flórída, hefur hins vegar ekki verið neitt á ferðinni nýlega, sem þykir benda til þess að veiran hafi nú borist til Tampa.
Staðfest er að a.m.k. 42 hafi smitast af Zika-veirunni á Flórída til þessa.
Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, sagði yfirvöld enn eiga eftir að staðfesta að hægt sé að smitast af Zika-veirunni í Pinellas-sýslu, en heilbrigðisyfirvöld í ríkinu vinna nú að rannsóknum í sýslunni.
Heilbrigðisyfirvöld á Flórída hafa varað ófrískar konur við ferðalögum til Flórída, en zika-veiran er m.a. talin geta valdið svonefndum smáheila hjá ungabörnum.