Forsætisráðherra á Pokémon veiðum

Erna Solberg
Erna Solberg AFP

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, tók hvíld frá fundarstörfum í höfuðborg Slóvakíu, Bratislava, í vikunni til þess að fara á Pokémon veiðar í gamla bænum. Með henni á skrímslaveiðum voru lífverðir, embættismenn og sjónvarpsútsendingarteymi. Lýsir AFP því að Solberg hafi tekið leikinn alvarlega og hvergi slegið slöku við þar sem hún starði einbeitt á skjá snjallsíma síns. 

Solberg segir í viðtali við TV2 að auk þess að leita að Pokémon skrímslum þá hafi hún frekar verið að reyna að verða sér úti um egg í leiknum. Það er nauðsynlegt að safna eggjum til þess að eiga möguleika á að veiða sjaldgæfustu Pokémonana. Þetta þýðir að leikmaður þarf að leggja á sig tölvuverða göngu, eða allt að 10 km, fyrir hvert egg. 

Solberg er þekkt fyrir spilaáhuga sinn en hún hefur oft komist í fréttir norskra fjölmiðla vegna Candy Crush sem hún spilaði af miklum móð. Nýjasta æðið er hins vegar Pokémon Go og segir hún að leikurinn hafi heillað hana strax á fyrsta degi sem var vandræðalegt því daginn áður hafði hún neitað því að spila leikinn. „Þetta var áskorun frá yngri systur minni sem fann Pokémon á veröndinni heima hjá mér,“ segir Solberg í viðtali við Aftenposten.

TV2 fylgdist með Solberg veiða Pokémon

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert