Rukka ekki lækniskostnað vegna árásar

Lögreglumenn að störfum skammt frá næturklúbbnum.
Lögreglumenn að störfum skammt frá næturklúbbnum. AFP

Sjúkrahús í borginni Orlando í Bandaríkjunum ætla ekki að rukka fyrir læknismeðferðir þeirra sem lifðu af skotárásina á næturklúbbnum Pulse í júní þegar 49 manns voru drepnir.

Að sögn forsvarsmanna sjúkrahúsanna verða afskrifaðar um 5,5 milljónir dala í lækniskostnað, eða um 650 milljónir króna, samkvæmt frétt BBC

Eftir árásina, sem var gerð 12. júní, þurfti að gera strax að sárum 53 sem særðust.

Árásarmaðurinn, Omar Mateen, var skotinn til bana af lögreglunni. Ríki íslams lýsti ábyrgð á hendur sér en ekki er ljóst hversu mikinn þátt hryðjuverkasamtökin áttu í árásinni.  

Ljósmyndir með þeim sem létust í árásunum voru lagðar á …
Ljósmyndir með þeim sem létust í árásunum voru lagðar á gangstétt áður en Hinsegin gangan í New York fór fram í júní. AFP

Af þeim 53 sem særðust voru 44 meðhöndlaðir á Orlando Regional-sjúkrahúsinu. Enginn þeirra verður rukkaður vegna læknismeðferðarinnar, að sögn fyrirtækisins Orlando Health sem rekur sjúkrahúsið.

Sömuleiðis verða fjölskyldur þeirra níu sem dóu skömmu eftir að þeir komu á sjúkrahúsið ekki rukkaðar.

„Skotárásin á Pulse var hræðilegur atburður fyrir fórnarlömbin, fjölskyldur þeirra og allt samfélagið okkar,“ sagði David Strong, yfirmaður Orlando Health. „Á þessum erfiða tíma hafa margar stofnanir, einstaklingar og góðgerðarfélög stutt við bakið á Orlando Health. Þetta er okkar leið til að láta gott af okkur leiða.“

Einhverjir reikningar verða sendir til þeirra tryggingafyrirtækja þar sem sjúklingar voru sjúkratryggðir.

Forsvarsmenn Flórída-sjúkrahússins þar sem aðrir sem særðust í árásinni voru meðhöndlaðir ætla heldur ekki að rukka fyrir læknismeðferðina. Jafnframt ætla þeir ekki að senda reikninga til tryggingafyrirtækja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka