Einkennalausir geta smitað

Zika-veiran getur smitast við moskítóbit en einnig við kynmök og …
Zika-veiran getur smitast við moskítóbit en einnig við kynmök og blóðgjöf. AFP

Karlmenn geta smitað konur af Zika-veirunni gegnum kynmök, jafnvel þótt þeir sýni ekki einkenni. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar, en tilefni hennar er tilfelli í Maryland í Bandaríkjunum, þar sem maður sem smitaðist af Zika í Dóminikanska Lýðveldinu en sýndi engin einkenni smitaði maka sinn.

Bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (FDA) hefur gefið út tilmæli um alsherjarskimun blóðgjafa fyrir Zika-veirunni.

Maryland-rannsóknin birtist í vikulegu fréttariti bandarísku sóttvarnastofnunarinnar (CDC) um dauðsföll af völdum sjúkdóma. Hún virðist benda til þess að smit séu engu minni líkleg meðal þeirra sem sýna ekki einkenni veirunnar en þeirra sem sýna einkenni.

Gildandi tilmæli um varnir til að koma í veg fyrir Zika-smit eru ólík eftir því hvort einkenni smits eru til staðar annars vegar og hvort par hyggur á barneiginir hins vegar. Þessu kann að þurfa að breyta.

Heilbrigðisvöld í Púertó Ríkó hafa greint frá því að allt að tíu einstaklingar hafa greinst með Guillain-Barré heilkennið í kjölfar Zika-smits. Guillain-Barré er taugasjúkdómur.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert