Meirihluti þeirra borgarstjóra í Frakklandi, sem höfðu bannað búrkíní í samtals 30 strandbæjum, neita að aflétta banninu þrátt fyrir að æðsti stjórnsýsludómstóll landsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að bannið brjóti í bága við lög.
Frönsk stjórnvöld eru sögð óviss um hvernig þau hyggjast bregðast við.
Yfir 20 borgarstjórar hafa ákveðið að aflétta ekki búrkíní-banninu, en samkvæmt því er konum óheimilt að klæðast svokölluðum búrkíníum á ströndinni. Bannið felur í sér að lögreglumönnum er heimilt að stöðva og sekta þær konur sem klæðast búrkíní.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að bannið væri „alvarlegt og ólöglegt brot gegn grundvallarmannréttindum.“
Innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve, sem hefur biðlað til fólks um að halda ró sinni og varað við því að kynda undir fórdómum gegn múslimum í Frakklandi, er sagður ætla að gefa frá sér yfirlýsingu um málið á morgun. Húsnæðismálaráðherrann Emmanuelle Cosse segir þá borgarstjóra sem hafa neitað að aflétta banninu leika sér að eldinum.
Meðal þeirra ráðamanna sem segjast hvergi ætla að gefa eftir eru borgarstjórarnir í Nice og Cannes. David Lisnard, borgarstjóri síðarnefnda bæjarins, segir niðurstöðu dómstólsins í engu breyta sannfæringu sinni og að umræddur klæðnaður sé vandamál.
Hann segir búrkíní „íslamísk“ og til marks um „salafismavæðingu“ samfélagsins.
Búrkíní-bannið er orðið að höfuðverk fyrir frönsk stjórnvöld, sem bera ábyrgð á því að farið sé að lögum og reglum. Tæknilega séð geta þau gripið til aðgerða til að þvinga borgarstjórana til að aflétta banninu en forsætisráðherrann Manuel Valls, sem styður bannið, hefur kallað eftir því að umræðan um búrkíníin haldi áfram.
Valls sagði á Facebook að klæðnaðurinn væri „birtingarmynd pólitíska íslam í hinu opinbera rými.“