Ríkisstjórn Egyptalands tilkynnti í dag að hún myndi fara þess á leit við þingið að það samþykkti strangari viðurlög við kynfæralimlestingum kvenna. Þær voru bannaðar árið 2008 en eru framkvæmdar bæði meðal múslima og kristinna.
Limlestingarnar, sem kallaðar eru umskurður af þeim sem iðka þær, fela í sér að ytri kynfæri konunnar eru fjarlægð, þ.e. ytri og innri skapabarmar og snípur.
Samkvæmt gildandi lögum eiga þeir sem framkvæma kynfæralimlestingar yfir höfði sér þriggja mánaða til tveggja ára fangelsi. Frumvarpið sem stjórnvöld hyggjast leggja fram felur hins vegar í sér að refsingin yrði fimm til sex ára fangelsi.
Stjórnvöld leggja einnig til að þeir sem hljóta dóma fyrir kynfæralimlestingar verði látnir vinna erfiðisstörf meðan á fangelsisvistinni stendur ef gjörðir þeirra leiddu til dauða eða örorku fórnarlambsins.
Kynfæralimlestingar geta orðið til þess að valda fórnarlambinu sársauka alla ævi, ekki síst við samfarir og í fæðingu. Þá geta þær haft í för með sér alvarlega sálrænar afleiðingar.
Aðgerðasinnar segja að bakslag hafi komið í baráttuna við að útrýma kynfæralimlestingum þegar Hosni Mubarak, þáverandi forseta, var steypt af stóli árið 2011. Ríkisstjórn hans setti bannið.
Sumir íslamistar hafa haldið því fram að bannið sé arfleifð einræðistilburða Mubarak og því eigi ekki að fylgja því eftir.
Samkvæmt fyrrnefndu lagafrumvarpi, sem nú liggur fyrir, eiga þeir sem neyða konu til að gangast undir kynfæralimlestingu yfir höfði sér eins til þriggja ára fangelsi.
Í maí sl. lést egypsk táningsstúlka eftir að hafa gengist undir aðgerðina. Móðir hennar, læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina og tveir aðrir hafa verið ákærðir fyrir manndráp af gáleysi.
Í janúar 2015 var læknir dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir sömu sakir og þriggja mánaða fangelsi fyrir að framkvæma kynfæralimlestingar. Þá dó 14 ára stúlka. Honum var aðeins gert að afplána síðarnefnda dóminn.