Fullyrt að viðræðurnar séu í fullum gangi

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýsti því yfir í dag að fríverslunarviðræður sambandsins við Bandaríkin væru á góðu róli. Hafnaði hún þeim ummælum Sigmars Gabriel, varakanslara Þýskalands, að viðræðurnar hefðu í raun misheppnast þrátt fyrir að enginn vildi viðurkenna það. Gabriel sagði fyrir helgi að þannig væri ekki fyrir hendi samkomulag um neinn af þeim 27 köflum sem gert væri ráð fyrir að yrðu í fyrirhuguðum samningi.

Haft er eftir talsmanni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Margaritis Schinas, í frétt AFP að viðræðurnar séu í gangi og árangur hafi náðst í þeim. Fram undan séu vissulega áskoranir en ef allt gangi að óskum eigi að vera hægt að klára viðræðurnar í lok þessa árs. Viðræður um mögulegan fríverslunarsamning hófust árið 2013 en vonast er til þess að hægt verði að ljúka viðræðunum áður en nýr Bandaríkjaforseti tekur við eftir áramótin.

Frétt mbl.is: Segir fríverslunarviðræður hafa mistekist

Viðræðurnar hafa mætt vaxandi andstöðu. Bæði á meðal almennings og stjórnmálamanna í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Gabriel sagði í samtali við þýska sjónvarpsstöð í gær að ekkert væri í raun að gerast í viðræðunum. Fleiri evrópskir stjórnmálamenn hafa talað á svipuðum nótum á undanförnum mánuðum. Þar á meðal Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sem sagði fyrirhugaðan samning ekki þjóna hagsmunum Frakka.

Schinas sagði hins vegar að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi ekki samþykkja fríverslunarsamning við Bandaríkin sama hvað hann kostaði. Þrátt fyrir að vera hlynnt slíkum samningi við Bandaríkjamenn. Haft er eftir Jean-Claude Juncker í frétt AFP að hann hafi fengið endurnýjað umboð til þess að halda fríverslunarviðræðunum áfram á fundi leiðtogaráðs sambandsins í júlí. Hann hafi ekki orðið var við skort á stuðningi þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka