Tólf ára gamall drengur og 37 ára gömul móðir hans voru skotin til bana í íbúð í norska bænum Kirkenes í nótt. Stjúpfaðir drengsins er alvarlega særður eftir skotárásina.
Uppfært klukkan 10.12 Á blaðamannafundi hjá lögreglunni kom fram að stjúpfaðirinn skaut mæðginin til bana. Hann liggur á gjörgæsludeild sjúkrahússins í Tromsø. Fullvíst þykir að ekki hafi fleiri verið í íbúðinni í miðbæ Kirkenes og að um fjölskylduharmleik sé að ræða. Morðvopnið fannst í íbúðinni, að sögn lögreglu. Flaggað er í hálfa stöng við grunnskóla bæjarins en íbúar Kirkenes eru um 3.500 talsins.
Frétt mbl.is: Tvö myrt í Noregi
Skólastjóri grunnskólans í Kirkenes, Tove Korsnes, staðfesti þetta við fjölmiðla í morgun, en drengurinn var nemandi við skólann. Morten Daae, talsmaður lögreglunnar í Finnmörk hefur staðfest þetta. Hann segir að lögreglan sé að reyna að ná í aðstandendur fjölskyldunnar og þess vegna hafi ekki verið greint formlega frá því að um fjölskylduharmleik hafi verið að ræða.
Nágrannar höfðu samband við lögreglu klukkan 4.13 að staðartíma í nótt og greindu frá hávaða í íbúinni. Þegar lögregla kom á staðinn fann hún þrjár manneskjur sem voru með alvarlega skotáverka. Konan var úrskurðuð látin á staðnum. Drengurinn og stjúpfaðir hans voru fluttir á sjúkrahús þar sem drengurinn var úrskurðaður látinn.