Búrkíníbann dregur úr öryggi fólks

Sameinuðu þjóðirnar fagna niðurstöðu æðsta stjórnlagadómstóls Frakklands um að víkja banni gegn búrkínísundfatnaði sem sett var á í bænum Villeneuve-Loubet í Frakklandi til hliðar.

Í röksemdum dómstólsins segir að bannið sé alvarlegt og brjóti bersýnilega gegn grundvallarréttindum, svo sem trúfrelsi. Stjórnvöld hafi ekki leyfi til að skerða frelsi einstaklingins án þess að sanna að almannahagsmunir krefjist þess.

Líklegt er að öll búrkíníbönn í bæjarfélögum Frakklands verði afturkölluð, en dómstóllinn mun taka endanlega ákvörðun um lögmæti bannsins síðar. 

Rupert Colville, talsmaður mannréttindaskrifstofu SÞ, segir að bannið hafi aukið á umburðarleysi gagnvart trú fólks og andstöðu gagnvart múslímum í Frakklandi, einkum konum. Slíkar reglur um klæðaburð auki ekki á öryggi fólks heldur ýtir undir andstöðu fólks gagnvart öðrum trúarbrögðum. Með því að banna búrkíní sé verið að taka rétt af konum og stúlkum um að taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig þær eigi að klæðast og sé það hiklaust mismunun gagnvart þeim. 

Hann segir að það hvernig búrkíníbanninu hafi verið framfylgt á baðströndum einhverra bæja sé bæði niðurlægjandi og til skammar. Um 30 franskir bæir hafa bannað konum að klæðast búrkínísundfatnaði á baðströndum þrátt fyrir niðurstöðu stjórnlagadómsins í máli eins þeirra.

Colville segir að SÞ fagni niðurstöðunni í máli búrkíníbanns Villeneuve-Loubet og hvetur aðra franska strandbæi til þess að afturkalla búrkíníbann umsvifalaust.

Hann segir að það sé öruggt að búrkíníbann auki ekki á öryggi íbúa. Ekki sé hægt að saka fólk sem klæðist búrkíní eða fatnaði af öðrum toga um að bera ábyrgð á ofbeldisverkum. Heldur geri slíkt bann ekkert annað en að auka spennu á milli fólks og geti haft slæm áhrif á baráttuna gegn öfgafólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert