Árásarmaðurinn látinn

Myndin sem lögreglan dreifði af Mesa Hodzic.
Myndin sem lögreglan dreifði af Mesa Hodzic. Lögreglan í Kaupmannahöfn

Maðurinn sem særði þrjá, tvo lögregluþjóna og einn vegfarenda, í Kristjaníu í Kaupmannahöfn á miðvikudag er látinn.

Maðurinn, Mesa Hodzic 25 ára, lést klukkan 1.42 í nótt að staðartíma, að sögn Jacob Kiil, lögfræðingur Hodzic. Hodzic skaut lögreglumennina þegar þeir ætluðu að handtaka hann fyrir sölu á fíkniefnum við Pusher-stræti í fríríkinu. Annar lögreglumanna fékk skot í höfuðið og liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi. Hinir mennirnir tveir eru minna særðir.

Hodzic flúði af vettvangi og var mikill viðbúnaður hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn aðfaranótt fimmtudags þar sem hans var leitað. Eftir að lögregla birti mynd af honum fékk hún ábendingu um hvar hann héldi sig í Kastrup-hverfinu. Þegar lögregla kom þangað reyndi Hodzic að flýja og skiptist á skotum við lögreglu og særðist hann lífshættulega.

Hodzic var danskur ríkisborgari og hafði búið í Danmörku frá fjögurra ára aldri en hann er frá Bosníu. Lögreglan greindi frá því í gær að Hodzic hefði tengsl við íslamska vígamenn (Millatu Ibrahim) og hefði sagt að hann styddi málstað Ríkis íslams. Ekkert hefði hins vegar komið fram sem benti til þess að þessi tengsl hefðu haft áhrif á glæpinn sem hann framdi enda þekktur fíkniefnasali.

Hodzic hefur ítrekað tengst ofbeldisverkum en var sýknaður af ákæru um að hafa stungið mann með hnífi í slagsmálum. Faðir hans kom einnig að slagsmálunum og hlaut hann dóm fyrir.

Áður en hann lést átti hann yfir höfði sér ákæru fyrir tilraun til manndráps í þremur liðum, ólöglegan vopnaburð og sölu fíkniefna.

<a href="http://www.b.dk/nationalt/formodet-gerningsmand-bag-skyderi-paa-christiania-er-doed-0" target="_blank">Frétt Berlingske</a> <a href="/frettir/erlent/2016/09/01/segja_arasarmanninn_fundinn/" target="_blank">Frétt mbl.is: Segja árásarmanninn fundinn</a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert