Bandarísk stjórnvöld hafa fordæmt flugskeytatilraunir Norður-Kóreumanna, sem þau segja beina ógn við bandamenn sína og almenna loftumferð.
Þremur flugskeytum var skotið út á Japanshaf frá austurströnd Norður-Kóreu í nótt. Flugskeytunum var skotið frá Hwangju að sögn talsmanns suður-kóreskra stjórnvalda. Talið er að flugskeytin séu af gerðinni Rodong, sem hefur um 1.000 km drægni og að flugskeytunum hafi verið skotið upp án nokkurrar viðvörunar.
Fyrr í nótt hafði Park Geun-hye, forseti Suður-Kóreu, greint frá því á G20-ráðstefnunni að ítrekaðar flugskeytatilraunir Norður-Kóreu reyndu á samskipti S-Kóreu og Kína. Biðlaði hún til Xi Jinping, forseta Kína, um að nýta tilraunirnar til að efla samskipti ríkjanna.
AFP-fréttastofan hefur eftir háttsettum bandarískum embættismanni, sem staddur var á G20-ráðstefnunni í Hangzhou í Kína, að stjórnvöld í Washington muni nú skoða hvort efla eigi alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu.